Stígur Berg Sophusson í Sjóferðum ehf býður bæjaryfirvöldum í Ísafjarðarbæ samstarf um sjóferðir um Ísafjarðardjúp þegar loka þarf vegum.
Í bréfi sínu byrjar Stígur á að rifja upp að þann 2. nóvember síðastliðinn hafi vegurinn milli Ísafjarðar og Hnífsdals (Bolungarvíkur) vegna aurflóðs.
„Í kjölfar þess hafði Hraðfrystihúsið Gunnvör samband við undirritaðan og óskaði eftir að fá bát til þess að flytja starfsfólk sitt milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Var það auðsótt, enda ágætt í sjóinn þó vindar blésu af landi. Var fólk flutt jafnt frá Ísafirði til Bolungarvíkur sem og Bolungarvík til Ísafjarðar. Siglingatími var 20-25 mínútur hvor leggur,“ skrifar Stígur sem kveður ýmsa hafa haft samband við fyrirtækið fram eftir kvöldi þann dag og spurt hvort fleiri ferðir yrðu í boði.
Svo framarlega sem sjóleiðin er fær
„Það var þó ekki raunin, enda vissu fáir um þennan valkost. Áður hafa verið farnar sambærilegar ferðir þegar snjóflóð hafa fallið á Súðavíkurhlíð. Nú vil ég benda á umræddan valkost ef aðstæður loka vegum milli byggðakjarna við Djúpið og veðuraðstæður (sjólag) eru færar. Ákvörðun um slíkt yrði þá að takast samhliða vegalokun, það er um leið og auglýst yrði lokun vegna ytri aðstæðna yrði bent á áætlunarsiglingu á föstum tíma með símanúmeri og skráningu (svo framarlega sem sjóleiðin er fær),“ segir í bréfi Stígs.
Tveggja manna áhöfn minna umstang en fjöldahjálparstöð
Að sögn Stígs yrði það sennilega minna umstang að kalla út bát með tveimur í áhöfn en að opna fjöldahjálparstöðvar, sérstaklega ef lokunarástand standi í langan tíma.
„Sjóferðir hafa ávallt hluta báta sinna á haffæri allan veturinn og tilbúna í skyndiverkefni á hvaða tíma sem er. Samhliða því að benda á þennan valkost er ég tilbúinn til umræðu um samstarf á þessum vettvangi,“ skrifar Stígur Berg Sophusson sem einnig sendi erindi sitt á Lögreglustjórann á Ísafirði og Vegagerðina.