Strandríkin sem hlutdeild eiga í kolmunnastofninum í Norðaustur-Atlantshafi hafa enn ekki komið sér saman um hversu mikið verður leyft að veiða á þessu ári. Byrjunarkvótinn miðað við 0,18 aflareglu var 949.000 tonn, en líklegt er að aflareglan verði hækkuð í að minnsta kosti 0,22 sem gæfi 1.140.000 tonna kvóta. Það þýddi að íslenski kvótinn hækkaði úr 154 þús. tonnum í 185 þús. tonn.
Kristján Freyr Helgason sérfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu tjáði Fiskifréttum að Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefði endurskoðað aflaregluna í kolmunna og komist að þeirri niðurstöðu að fiskveiðiálag á bilinu frá 0,18 til 0,30 væri í samræmi við varúðarnálgun. Þetta þýðir að veiði á bilinu 949.000 til 1.500.000 tonn væri innan markanna.
Sjónarmið Íslands hefur ávallt verið það að nýta þennan stofn með gætni til þess að hann fengi norðlæga útbreiðslu en Norðmenn vilja nýta svigrúmið tli hærra veiðiálags.
Sjá nánar í Fiskifréttum.