Veiði á íslensku sumargotssíldinni fyrir vestan land gengu fremur treglega í byrjun viku enda bræla á miðunum langt vestur af Snæfellsnesi. Þar hafði verið ágæt veiði en dró svo úr henni þegar fór að blása af norðaustri. Ásgrímur Ingólfsson, skipstjóri á Jónu Eðvalds SF 200, sagði þó að heilt yfir gangi ágætlega að eiga við síldina.

Auk Jónu Eðvalds voru á miðunum Vilhelm Þorsteinsson EA, Heimaey VE, Ásgrímur Halldórsson SF og Gullberg VE. Sama staða var hjá öllum; menn voru að leita og erfitt um vik vegna leiðindaveðurs. Venus NS var á leið til löndunar á Vopnafirði með afla.

Jóna Eðvalds með mestan afla

„Við höfum verið hérna í sólarhring út af Brjálaða hrygg og erum bara að leita en finnum lítið þessa stundina. Það hafði verið góð veiði hér fyrir sólarhring. Annars hefur þetta gengið ágætlega með síldina og bara mjög gott í samanburði við fyrri ár,“ segir Ásgrímur.

Ásgrímur Ingólfsson skipstjóri.
Ásgrímur Ingólfsson skipstjóri.

Í byrjun vikunnar var afli í íslensku síldinni kominn vel yfir 40 þúsund tonn en heildaraflamarkið fyrir þetta fiskveiðiár er 93.000 tonn. Það gengur því ágætlega á kvótann og var Jóna Eðvalds aflahæst uppsjávarskipa með tæp 11 þúsund tonn samkvæmt tölum Fiskistofu sem voru uppfærðar 6. nóvember. Vitað var að Venus var á landleið með farm og tölurnar eru fljótar að breytast enda eru uppsjávarskipin stór og bera mikla farma.

Stofnstærðin aukist

Upp kom skæð sýking af völdum sníkjudýrsins ichthyophonus í stofninum 2009-2011 og 2016 og hefur, að mati Hafrannsóknastofnunar, verið viðvarandi allt síðan þá. Í stofnmatsskýrslu Hafrannsóknastofnunar 2023 segir að „enn eru þó nýsmit að eiga sér stað eins og sést í yngri síldinni, svo að gert er ráð fyrir eins smitdauða árið 2023, líkt og undanfarin ár. Rannsóknir benda til að um þriðjungur sýktrar síldar drepist af völdum hennar.“

Um ástand stofnsins segir Hafró hann hafa verið stóran í kringum 2007 en hann minnkað stöðugt til ársins 2017 þrátt fyrir litla veiði. Þessi minnkun hafi verið afleiðing af sýkingardauða á árunum 2009-2011 og 2016-2018 en einnig vegna þess að nýliðun inn í stofninn var lítil. „Síðan 2020 hefur nýliðun verið góð og árgangar 2017-2019 eru stórir, þar af leiðandi hefur stofnstærðin aukist síðan 2021.“

Ósýkt síld

Ásgrímur sagði síldina sem hefur fengist vel á sig komna. Meðalþyngdin er í kringum 300 grömm og það sem mest er um vert er að engrar sýkingar hefur orðið vart í aflanum. Jóna Edvalds var á norsk-íslensku síldinni fyrir austan land og var svo í landlegu í hálfan mánuð áður en farið var á íslensku sumargotssíldina fyrir vestan land. Ásgrímur segir muninn á þessum tveimur stofnum þann að sú norsk-íslenska er umtalsvert stærri enda hrygni hún að vori.

„Það var mjög góð veiði á norsk-íslensku í Héraðsflóanum og það munaði talsvert fyrir okkur að sækja hana þangað eða vera hér við veiðar. Það eru um 300 mílur héðan til Hafnar og sigling sem tekur um sólarhring en það ræðst auðvitað líka af veðri og vindum,“ segir Ásgrímur.