Búið er að veiða um 84% af þorskkvótanum þegar 8 mánuðir eru liðnir af fiskveiðiárinu. Alls hafa verið veidd um 109 þúsund tonn af um 130 þúsund tonna þorskkvóta, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu.
Aflastaðan í öðrum helstu botnfisktegundum er þannig að um 75% ýsukvótans hafa veiðst, 71% ufsakvótans og 72% steinbítskvótans. Þess má geta að þorskkvóti okkar í norsku lögsögunni í Barentshafi hefur veiðst að fullu. Verulega hefur gengið á löngukvótann, um 94% af honum hafa veiðst. Hins vegar hafa veiðst 67% af keilukvótanum.
Sem fyrr er nokkuð eftir af kolategundum. Um 60% kvótans í skarkola og þykkvalúru hafa veiðst, um 54% af langlúrukvótanum og 59% af sandkola. Minnst hefur veiðst af skrápflúru, eða 42% kvótans.