Loðnuvertíð stendur sem hæst þessa dagana og keppast skipin við að ná í sem mest, enda ekki margar vikur þangað til búast má við vertíðarlokum. Loðnuflotinn var við veiðar vestur af Vestmannaeyjum í gær og að sögn Hjalta Einarssonar, skipstjóra á Svani RE, gengu veiðarnar vel og hrognafylling komin í 18%. Þau tíðindi bárust síðan í gær að í kjölfar loðnuleiðangurs Hafrannsóknastofnunar mætti búast við 100.000 tonn aukningu í hámarksafla, varlega áætlað.
Sólarhringssigling austur
„Loðnan er komin á fleygiferð hingað vestur eftir en við erum bara á fyrsta kasti í þessum túr hérna beint norður af Þrídröngum og við höfum verið að dæla eitthvað nálægt 300 tonnum núna. Það hefur verið fínasta veiði undanfarna daga. Loðnan er ekki alveg komin að hrygningu en hrognafyllingin er einhvers staðar nálægt 18%,“ sagði Hjalti þegar rætt var við hann í gærmorgun.

Siglt verður með aflann að loknum túr aftur austur til Vopnafjarðar með tilheyrandi frátöfum en siglingin þangað tekur rúman einn sólarhring. Þar verður loðnan fryst á Japansmarkað. Hjalti segir þó ekki hundrað í hættunni, kvótinn sé ekki það stór.
„Menn hafa verið að sjá töluvert af loðnu hér á leiðinni austan að. Menn vissu svo sem af því. Norðmenn hafa verið að veiða þarna út af Hvalbaknum og sjórinn er fullur af loðnu út af suðurströndinni.“
Hér á landi er búið að landa um 40 þúsund tonnum, sem er ríflega 22 prósent af heildarkvóta upp á 179.905 tonn. Norðmenn hafa lokið sínum veiðum, harla sáttir. Þeir náðu að veiða þau 48 þúsund tonn sem í hlut þeirra kom á vertíðinni.
Vika í hrognavinnslu
Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarvinnslu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, segir veiðina hafa gengið nokkuð vel á þessari vertíð. Loðnan sé þessa dagana að færast sífellt nær Vestmannaeyjum.
„Það auðveldar okkur lífið. Menn hafa verið snöggir að ná í skammtinn, það er svo stutt að fara og góð veiði. Við erum að frysta svona kringum 400 tonnin á dag. Það er meira að segja smá löndunarbið hjá okkur. Eigum við ekki vona að við eigum viku eftir í frystingu, svo koma hrognin eftir það,“ sagði Sindri.