Þær eru misjafnar áhyggjurnar í lífinu. Stundin gerði sér fréttamat úr því í upphafi vikunnar að þeir Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefðu tekið þátt í kynningu á því sem kallað er Boditrax tækni, sem í stuttu máli mælir samsetningu líkamans, vöðvamassa, fitumagn o.s.frv.

Skandallinn átti að felast í því að það væri líkamsræktarstöðin Hreyfing, hvar Ágústa Johnson, eiginkona Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, er framkvæmdastjóri sem stóð fyrir mælingunni. Systurfréttastofan á Ríkisútvarpinu gerði síðan langa frétt um þetta stóra mál og kallaði til sérfræðing við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands!

Hrafnarnir sjá ekki alveg skandalinn í þessu öllu saman og þó svo að þeir hafi oft gaman að Brynjari Níelssyni, þá efast þeir stórlega um að hann verði í tímanna rás andlit Hreyfingar og öðrum fyrirmynd í líkamsrækt og hollu líferni.

Ágústa Johnsen hefði líklega getað kastað steini út um gluggann og fundið betra andlit fyrirtækisins en Brynjar, eins og hann myndi eflaust viðurkenna fúslega sjálfur.