Fiskur sem áður var hent fyrir borð frá skipum sem veiða í lögsögu ESB-ríkja vegna þess að þau höfðu ekki kvóta fyrir honum gæti í framtíðinni verið dreift til frátækra, að því er fram kemur á vef Fishupdate.

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, hitti á dögunum breska þingnefnd þar sem hún kynnti fyrirhugaðar umbætur í fiskveiðistjórn ESB. Ein af þessum umbótum er að stöðva brottkast.

Damanaki sagði við þetta tækifæri að nú væri litið til þess hvort ekki væri hægt að gefa sjómönnum kost á því að koma með afla umfram kvóta í land, afla sem annars hefði verið kastað í sjóinn aftur, og fiskurinn færi til góðgerðarmála. Fátækt fólk myndi njóta góðs af því. Aðspurð sagði Damanaki að ekki væri búið að útfæra þessa hugmynd nánar, svo sem hvers konar góðgerðarmál myndu fá stuðning eða hvaða aðilar ættu að annast framkvæmdina.