Aðskilja veiðar og vinnslu, allan fisk á markað, takmarka kvótaframsal, auka hlut réttmætra eigenda þjóðarauðlindanna  í arði af fiskveiðum og auka þorskkvótann um hið minnsta 100 þúsund tonn á ári. Þetta eru hjartans mál Einars Hálfdánssonar skipstjóra og nú háseta á snurðvoðarbátnum Sigurfara GK.

Einar, sem er 75 ára gamall, lítur út fyrir að vera maður á sjötugsaldri. Hann heldur sér í góðu formi með göngum og með því að synda 40 ferðir í 50 metra Laugardalslauginni þegar ekki viðrar til gönguferða. Honum líður best á sjó og það var hálfgerð óeirð í honum því bátnum hafði verið haldið frá veiðum í um hálfan mánuð, sennilega vegna kvótastöðu.

Ætti að veiða 100.000 t meira

„Fiskveiðistjórnunin á Íslandi er líka fullkomin hringavitleysa. Við höfum verið að veiða 100 þúsund tonnum of lítið af þorski á hverju ári í yfir 40 ár og alltof lítið af ýsu líka. Það voru alltaf hérna að meðaltali á veiðum 300 enskir togarar; kannski 100-120 við veiðar, 100 á leiðinni á miðin og 100 á leiðinni heim. Þeir hafa veitt um 300 þúsund tonn á ári. Svo voru hér Þjóðverjar, Færeyingar og aðrar þjóðir. Íslendingar veiddu sjálfur alltaf um 450 þúsund tonn. Nú má ekki taka nema undir 300 þúsund tonnum í heildina. Það átti aldrei að fara svona neðarlega. Það hefur ekkert áunnist við það að hrekja útlendingana út úr landhelginni,“ segir Einar.

Hann telur að niðursveiflan í stofninum um miðjan áttunda áratuginn hafi verið vegna þess að kaldur sjór hafi verið í kringum Ísland á milli 1970-1980. Það hafi tafið kynþroska fisksins um 4-5 ár. Síðan hafi sjórinn hlýnað allt frá 1990 og það sjáist berlega nú í uppgangi þorskstofnsins. Alltaf séu menn þó við sama heygarðshornið hvað varðar kvótaúthlutanir.

Tveir heimar

Einar er fæddur og uppalinn í Bolungarvík 1946, sonur Hálfdáns Örnólfssonar sem gerði út trillur. Þar steig Einar sín fyrstu skref tíu ára gamall við línuveiðar.

1961 réðst hann fyrst í skipspláss. Þá kom hann beint úr heimavistarskóla á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og fór á línubátinn Kristján Hálfdáns frá Bolungarvík, þá 15 ára gamall. Bjóðin voru í eikarstömpum sem voru miklu þyngri en bjóðin sjálf. Allt handbeitt í landi og sver lína í færunum.

„Þetta var miklu meira strit hér áður fyrr. Menn voru að hætta til sjós fimmtíu ára gamlir, voru bara búnir á því. Mér fannst pabbi minn slitinn þegar hann varð fimmtugur eftir allan þennan tíma til sjós.“

Þegar Einar er að stíga sín fyrstu skref í sjómennskunni var margt með öðrum hætti. Öryggisbúnaður eins og hjálmar og líftaugar þekktust ekki og menn voru bara lausir úti á dekki í öllum veðrum. Á skipstjórnarferli Einars gerðist þó ekkert alvarlegt en mikill mannskaði vildi loða lengi við sjómennskuna hér við land.

Sumrin ´63, ´64, ´65 og ´66 var Einar á síld fyrir norðan og austan á Hugúnu frá Bolungarvík sem Einar Guðfinnsson gerði út. Farið var á svæðið í kringum Jan Mayen og jafnvel norður fyrir eyna. Landað var mest á Seyðisfirði og siglingin var löng.

„Ég man það bara að við fórum á síld eitt árið tveimur dögum eftir sjómannadag og komum heim aftur 18. desember. Það var ekkert verið að væla yfir því í þessa daga. Það var góð þénusta. Þetta var stór og flott síld sem við fengum, demantssíld. Megnið fór í bræðslu því þetta voru langar siglingar og engin kæling. Svo komu síldarflutningaskip á svæðið, Síldin og Haförninn en líka Dagstjarnan. Einar Guðfinnsson hafði keypt hann til þess að flytja síld. Einar var vel liðinn af öllum í Bolungarvík. Þegar mest lét var hann með mikið umleikis.“

Í karfa í Fjöllunum

Alveg fram til 1971 var hann á hinum og þessum bátum sem gerðir voru út frá heimabænum. Svo tók Stýrimannaskólinn við í Reykjavík. Einar stundaði karfaveiðar á Reykjaneshrygg, fyrst á Dagstjörnunni með Ragnari Franzsyni skipstjóra frá 1973. Þegar Ragnar hætti sem skipstjóri 1977 var skipið selt til Sandgerðis og hét þá Sveinn Jónsson GK. Gísli Arnbergsson tók við sem skipstjóri og var til ársins 1986. Frá þeim tíma og til ársins 2000 var Einar skipstjóri Sveins Jónssonar GK. Var þá sótt stíft í karfa í Fjöllunum og fyrir vestan land og norðan.

Á sínum langa ferli var Einar bara einu sinni munstraður á síðutogara og hann upplifði náttúrulega skuttogarabyltinguna upp úr 1973. Hann segir að allt hafi breyst með þeim; vinnuaðstaðan, öryggismálin og tæknivæðingin. Önnur bylting hafi komið með nýju HB Granda togurunum, nú Brim, með sjálfvirkum lestum og allt annarri afkastagetu.

Undanfarin sjö ár hefur Einar verið á snurðvoðarbátnum Sigurfara GK sem gerður er út af Nesfisk. Þar hefur lítið breyst frá því að snurvoðarspilin komu. Hann lætur vel af sér enda verið hjá útgerðinni í um 20 ár. Hann byrjaði á togaranum Berglín GK árið 2000 og þá aftur í plássi með Gísla Arnbergssykni. Var Einar þar í 14 ár áður en hann fór yfir á Sigurfara. Nú hillir undir að nýr togari Nesfisks, Baldvin Njálsson, komi til landsins. Einar ætlar ekki að spá fyrir um hvað verður um útgerð snurvoðarbátanna Sigurfara, Sigga Bjarna og Benna Sæm við þær breytingar. Gamli Baldvin Njálsson veiddi 8.300 tonn á síðasta fiskveiðaári og Einar segir líklegt að nýja skipið þurfi 12.000 tonna kvóta.

Alltof lítið til þjóðarinnar

Einar er ekki alls sáttur við fyrirkomulagið í fiskveiðistjórnunarkerfið. Honum finnst sjálfsagt og eðlilegt að útgerðirnar hafi veiðirétt á kvótanum en þær eigi ekki kvótann.

„Mér þætti eðlilegast að allur fiskur færi á markað og tíund tekin af honum sem rynni til réttmætra eigenda kvótans, þjóðarinnar. Við þá sem óttast að fiskverð hrynji við svo mikla aukningu á framboði á mörkuðunum segi ég að verðið muni leita jafnvægis því fjölmargir aðilar munu sjá sér leik á borði að kaupa fisk á markaði, verka og selja. Vandamálin nú er hve kaupendurnir eru fáir og þeir ráða markaðnum. Útgerðirnar stjórna fiskverðinu á markaðnum með inngripum þegar þeim sýnist. Þær ráða líka verðinu á fiski sem þær selja fyrirtækjum í eigin eigu erlendis. Það á að slíta í sundur útgerð og vinnslu, skattleggja þann fisk sem fer um markaðinn og afraksturinn af því á að fara til þjóðarinnar. Fyrirkomulagið nú er eilífðar deilumál en staðreyndin er sú að þjóðin fær alltof of lítið af afrakstrinum. Þetta finnst mér hafa verið mál málanna alla tíð,“ segir Einar.

Viðtalið við Einar birtist upphaflega í sjómannadagsblaði Fiskifrétta.