Á fjárlögum er reiknað með því að veiðigjöld lækki aftur á næsta ári og þau dugi ekki fyrir útgjöldum ríkisins til rannsókna og þróunar í sjávarútvegi.

Heildargjöld úr ríkissjóði til sjávarútvegs og fiskeldis eru áætluð 8,8 milljarðar króna, og lækka um 948 milljónir milli ára eða 704 milljónir þegar tillit hefur verið tekið til launa- og verðlagsbreytinga.

Bróðurparturinn af þessu fé rennur til rannsókna, þróunar og nýsköpunar í sjávarútvegi, eða samtals ríflega 7 milljarðar króna. Undir málaflokkinn falla verkefni Hafrannsóknastofnunar, smíði hafrannsóknaskips, Verkefnasjóður sjávarútvegsins og framlög til ýmissa samninga og verkefna í sjávarútvegi og fiskeldi, svo sem vegna rannsókna, þróunar og nýsköpunar.

Tafir á skipi

Framlag ríkisins til þessa málaflokks lækkar um 900 milljónir vegna tafa sem hafa orðið á hönnun og undirbúningi við smíði á nýju hafrannsóknaskipi. Nú er gert ráð fyrir að samningar um smíðina verði undirritaðir í byrjun komandi árs.

Einnig lækka fjárheimildir til málaflokksins um 120 milljónir vegna þess að tímabundið framlag til Hafrannsóknastofnunar vegna mælinga á stofnstærð loðnu fellur niður.

Eins og undanfarin ár er aðhaldskrafa gerð til þessa málefnasviðs, og er hún upp á 97 milljónir.

Þá er áætlað að 1,7 milljörðum verði varið í stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis, en þar er átt við starfsemi Fiskistofu og Verðlagsstofu skiptaverðs auk þess sem Fiskræktarsjóður, Umhverfissjóður sjókvíaeldis, Fiskeldissjóður og alþjóðlegt samstarf í sjávarútvegi heyra undir þennan málaflokk.

Veiðigjöld lækka

Gert er ráð fyrir 6,3 milljarða tekjum af veiðigjöldum á árinu 2022, sem er um það bil 1,4 milljarða lækkun frá árinu 2021. Inni í þeirri tölu eru um 700 milljónir sem koma af gjaldi á fiskeldi.

„Afkoma sjávarútvegsfyrirtækja reyndist talsvert lakari árið 2020 en árið 2019 og því er gert ráð fyrir að veiðigjöld lækki frá fyrra ári en auk þess var aflmark þorsks lækkað,“ segir í frumvarpinu. Þessi áætlun verði þó endurskoðuð nú í byrjun desember þegar endanleg ákvörðun um veiðigjöld liggur fyrir hjá Skattinum.

Tekjur af veiðigjöldum munu því ekki duga fyrir útgjöldum ríkisins til sjávarútvegs og fiskeldis, en fara þó langt með að duga fyrir því sem fer í hafrannsóknir, þróun og nýsköpun.

Veiðigjöld eru reiknuð út frá afkomu við veiðar hvers nytjastofns tveimur árum fyrir álagningu, þannig að veiðigjöld ársins 2022 eru reiknuð út frá afkomunni árið 2020.

Á þessu ári er reiknað með að um 7,7 milljarðar verði greidd í veiðigjöld, sem er nærri 3 milljarða hækkun frá árinu 2020 þegar þau námu um 4,8 milljörðum. Hæst urðu þau árið 2019 þegar greiddir voru 11,3 milljarðar.

Gangi vonir um mikla loðnuveiði árið 2022 eftir má síðan búast við að veiðigjöldin árið 2024 verði eitthvað hærri.

Lækkun fyrirhuguð

Útgjöld ríkisins til sjávarútvegs og fiskeldis næsta ár eru ekki langt frá því sem ráð var fyrir gert í fjármálaáætlun fyrir árin 2022 til 2026, en þar er hins vegar reiknað með því að framlagið lækki töluvert á næstu árum og verði 6,7 milljarðar árið 2023 og lækki nokkuð ár frá ári niður í 6,3 milljarða árið 2026.

Það verður Svandís Svavarsdóttir, fráfarandi heilbrigðisráðherra, sem nú heldur utan um þennan málaflokk en hún tók í vikunni við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra af Kristjáni Þór Júlíussyni. Við það tækifæri sagði hún verkefni ráðuneytisins áhugaverð og spennandi: „Nú er að bretta upp ermarnar og fara í það sem framundan er.“