„Við erum við með brjálæðislega hraðvaxandi grein, þar sem regluverkið er brotakennt, leyfisveitingaferlið er flókið og eftirlitið mætti örugglega vera betra,“ sagði hún í viðtali sem birtist í nýjustu Fiskifréttum. „Það er líka alveg á hreinu efnahagslega að fjármagnið er ekki að skila sér með nægilega afgerandi hætti inn í nærsamfélögin og innviðina.“

Mismunandi útgáfur af fiskeldi, hvort sem það eru opnar sjókvíar, landeldi eða jafnvel úthafseldi, hafi samt allar mismunandi kosti og mismunandi galla.

„Það er augljóst að þegar þú ert á landi þá þarftu að búa til aðstæður sem eru fyrir hendi þegar þú ert úti á sjó, en um leið eru aðstæðurnar stýrðari, þannig að þú ert í minni hættu varðandi tiltekna mengunarþætti, hvort sem er beina mengun eða hættu á erfðamengun og þess háttar. Þannig að ekkert af þessum þremur leiðum eru þannig að maður hugsi, já þetta er gjörsamlega borðleggjandi.“

Áskoranir á báðum endum

„Um leið og við erum algerlega meðvituð um mikilvægi þess að auka fæðuframleiðslu, efla fæðuöryggi, leggja meira að mörkum sem samfélag til þessara viðfangsefna aldarinnar, þá er ekki síður mikilvægt að huga þarna að sjálfbærni, að við séum ekki með eldi að hafa varanleg áhrif á takmarkaðar auðlindir jarðar. Við þurfum mikla orku og við þurfum mikið vatn í þetta og við þurfum að passa upp á að það sé gert vel, og þá erum við á báðum endum með áskoranir. Annars vegar með fóðrið, hvaðan á það að koma? Hins vegar með úrganginn, eða eigum við að kalla það hráefni? Sem við getum mögulega nýtt í eitthvað annað, í lífrænan áburð í landbúnaði eða í landgræðslu. Það gefur auga leið að þegar við erum með matvælaframleiðslu þar sem ferlið sem slíkt losar ekki mikið kolefni, en við erum með mikil aðföng og mikinn vannýttan úrgang, þá þurfum við að fara spyrja spurninga. Þannig að þetta eru ýmsar áskoranir sem snúast um sjálfbærni til lengri framtíðar.“

Lesa má meira úr viðtalinu við Svandísi hér.