Þó sumarblær strjúki nú kinn þá er harður vetur ekki gleymdur. Illviðri febrúar- og marsmánaða fara í sögubækur og ekki síður þungur sjór og brim sem lömdu helst Suður- og Vesturland vikum saman. Eftir eitt slíkt veður rak fisk og fugl á fjörur í slíku magni að ekki finnast heimildir um neitt viðlíka. Íslendingar hafa þó lengi nýtt rekinn fisk á fjörum.

Mánudagskvöldið 7. febrúar og aðfaranótt 8. febrúar var mikið suðvestan brim við sunnan- og vestanverðan Reykjanesskaga. Ölduhæð á Garðskagadufli fór þá upp í 20 metra sem þýðir að hæstu öldur voru mun hærri en það.

Stuttu síðar bárust Hafrannsóknastofnun fréttir af því að mikið hefði rekið af fiski upp í Stóru Sandvík á vestanverðu Reykjanesi. Starfsmenn stofnunarinnar fóru strax á staðinn og mátu magn fisks í víkinni sem er um einn kílómetra að lengd.

„Í ljós kom að aðallega var um tegundina litla karfa að ræða, alls um 29.000 fiskar á bilinu 5-23 sentímetrar. Þar er líklega um lágmarksfjölda að ræða því sandur hafði fokið yfir eitthvað af smæsta fiskinum,“ segir í frétt Hafrannsóknastofnunar en auk litla karfa fundust um 140 ljóskjöftur, keilur , 115 sentímetra langur þorskur, ufsi, spærlingur og marsíli. Auk fiskanna voru í fjörunni nokkrir nýlega dauðir fuglar; fimm súlur, tvær langvíur, fýll og æðarfugl.

Mikið upprót

Í kjölfar þessa fundar voru aðstæður einnig skoðaðar við Garðskagavita og víðar. Við vitann var sýnilegt mikið upprót af þara og nokkrir tugir af litla karfa. Einnig sagði frá því að nokkuð fannst af litla karfa í fjörunni í Sandgerði, við Sandhöfn norðan Hafnabergs og við Ísólfsskála við sunnanvert Reykjanesið.

Keila, ljóskjafta, litli-karfi, ufsi og spærlingur voru meðal tegunda sem hafið skilaði á land í óveðrinu. Sérfræðingar H
Keila, ljóskjafta, litli-karfi, ufsi og spærlingur voru meðal tegunda sem hafið skilaði á land í óveðrinu. Sérfræðingar H

„Ljóst er að mikið magn af litla karfa og talsvert af ljóskjöftu hefur drepist við Reykjanesið í óveðrinu sem gekk yfir aðfaranótt þriðjudags. Einnig er líklegt að fuglarnir sem fundust í fjörunni í Stóru Sandvík hafi drepist af þess völdum. Hægt er að fullyrða að rekinn er ekki af völdum brottkasts því þetta eru mest það smáir fiskar að þeir koma ekki í veiðarfæri fiskiskipa,“ var niðurstaða Hafrannsóknastofnunar sem staðfesti við Fiskifréttir að á þeirra bókum eru engar frásagnir af brimrotuðum fiski í þessu magni.

Bjargráð

Það eru engar fréttir að fisk reki á fjörur í töluverðum mæli. Þekkt er að Íslendingar hafa tínt síld á fjöru svo lengi sem heimildir ná. Var það til átu en í meira mæli til beitu, að ætla má.

Um stórfelldan reka af fiski eftir óveður finnast þó einstaka heimildir. Til einnar þeirrar bestu er vísað í umfjöllun á síðunni eldsveitir.is en þar kemur þetta skemmtilega orð – brimrotaður – fyrir.

Boltaþorskar voru meðal þeirra þúsunda fiska sem brimið skilaði upp í fjöruna í Stóru-Sandvík. MyndSvanhildur Egilsdóttir
Boltaþorskar voru meðal þeirra þúsunda fiska sem brimið skilaði upp í fjöruna í Stóru-Sandvík. MyndSvanhildur Egilsdóttir

Þar segir:

„Eitt af bjargráðum fólks sem bjó við ströndina var að ná sér í soðið eftir að mikil brimveður höfðu kastað fiski á land. Sækja þurfti fiskinn mjög snemma morguns, áður en fuglinn komst í hann. Kom fyrir að fólk náði mörgum hestburðum af fiski á góðum morgni. Vilhjálmur Eyjólfsson sagðist muna eftir að vinnumaður á Hnausum kom heim einn morguninn með hest hlaðinn golþorskum. Voru þorskarnir hengdir á klakkinn og voru sumir það stórir að þeir drógust nánast við jörð. Telur Vilhjálmur að þetta hafi verið um 1930 en eftir þetta man hann ekki til þess að farið hafi verið frá Hnausum til að finna sjórekinn fisk.“

Ský tilsýndar

Í sömu grein er vísað til bókar Erlings Filippussonar Vestur-Skaftafellsýsla og íbúar hennar þar sem segir af því þegar hann við annan mann fara á fjöru að sækja fisk.

„Í miklu brimi rak fiskinn á land, rotaður af briminu, og var þá heill og vel ætur ef mönnum tókst að ná honum áður en fuglinn komst í hann. Eitt sinn frétti Erlingur af því að fiskreki væri á fjörunum og vildi ólmur fara af stað og athuga hvort ekki væri hægt að ná einhverju. […]

„Einstaka afætu áll var í námunda við Núpsvötn, en þó ekki til baga. Eftir það var leiðin hin ákjósanlegasta, og komum við á Núpsstaðarfjöru austan Rauðabergsóss; var þá um fullbirtingu og ekkert að sjá, nema sjó og sand, hvorki fisk eða fugl. Leizt okkur ekki á, að hér mundi verða ferð til fjár; auðvitað hafði ég ekki orð á því, en Ólafur minnti mig á, að við myndum ekki þurfa að kvíða ofhleðzlu til baka. Ég tók því öllu með ró og stillingu, en satt að segja var nú samvizkan orðin í svefnrofunum hjá mér eða vel það; átaldi hún mig fyrir að hafa tælt Ólaf til fjöruferðar, sem ekkert gæfi í aðra hönd, þræla út hestunum, svo að þeir þyrftu miklu meiri gjöf eftir en áður, og í ofanálag fengi ég svo skömm og sneypu. Þetta lét samvizkan mig hafa og þaðan af verra. Tók ég því öllu með þögn, sem vænta mátti. Áttaði ég mig þó brátt á þessu framferði hennar og skipaði henni í flet sitt; sofnaði hún samstundis. – Við vorum komnir að Rauðabergsós og var hann vatnslítill og olli því engri töf. Héldum við nú vestur Núpsstaðarfjöru og urðum ekki reka varir. En er á Rauðabergsfjöru kom, fórum við að sjá máv yfir brimgarðinum, og vestast á henni var talsvert rekið af fiski, en flest fyrir svo löngu að ekki var nema beinagrindur. Einstaka fisk fundum við heilan en úr flestum var selurinn búinn að bíta kviðinn og hirða lifrina. Þegar dró vestur eftir Kálfafellsfjöru, óx rekinn og var fuglinn svo mikill yfir brimgarðinum, að líkast var skýi tilsýndar, en selurinn eins og krap með ströndinni inn á innsta brot, og lék af kappi við aðgerðina, en mávurinn hirti allt hvað hann gat af því, sem selurinn leyfði. Glaða sólskin var allan daginn og steikjandi hiti, og vorum við á spretti til kvelds í kappi við mávinn, að ná einhverju af fiski, áður en allt væri upp étið. Bárum við hann saman í hrúgur og grófum niður, en settum upp staura við hverja dys. Þetta gekk fram undir rökkur, og vorum við rennblautir af svita eftir dagsverkið.“

Það var ekki bara fiskur sem hafið skilaði, heldur einnig fugl. Þessi súla var á meðal þeirra fimm sem fundust í fjörunni
Það var ekki bara fiskur sem hafið skilaði, heldur einnig fugl. Þessi súla var á meðal þeirra fimm sem fundust í fjörunni

Orð á stangli

Ef gluggað er í eldri heimildir þá eru frásagnir af brimrotuðum fiski og nýtingu hans afar brotakenndar.

Nokkur dæmi finnast þó sem skýra myndina. „… rak 18 hundrud af brimrotudum fiski á Eyrarbakka,” segir í árbókum Jóns Espólín fyrir árin 1821 – 1855.

Í ferðabók Þorvaldar Thoroddsen, Ferðabók I-IV. Skýrsla um rannsóknir á Íslandi 1882-1898, segir frá þessu sama:

„Hinn 21. október 1878 var mikil hríð með stórbrimi á Skaga og  víðar norðanlands; urðu þá viða miklir fjárskaðar. Á Skaga gekk brimið yfir háan malarkamb, sópaði burtu fjárhúsi með 40 kindum og tók af helming túnsins. […] rak í Höfnum 60 karfa og mikið af öðrum brimrotuðum fiski og mikið af dauðum æðarfugli.”

Eins segir Þorvaldur í grein í Andvara árið 1884.

„Útræði er mikið í Grindavík, en mjög er þar brimasamt. Allt er dregið á handfæri. Opt rekur hjer brimrotaðan fisk, þorsk, lúðu o. fl. Í fyrra síðari vikurnar af Þorra rak bæði í Selvogi og Grindavík fjarskamikið af karfa (Sebastes norvegicus), svo öll fjaran var rauð af honum.“

Árni Óla segir í bók sinni Þúsund ára sveitaþorp. Úr sögu Þykkvabæjar í Rangárþingi: „Þegar kom fram á góu fór að reka brimrotaðan fisk.“

Og eins segir í tilvitnun í Sögu Eyrarbakka eftir Vigfús Guðmundsson: „Þannig rak á Eyrarbakka […] 18 hundruð […] fiska brimrotaða.” Til hvaða tíma er vísað segir ekki frá.

Hausbein úr þorski

Í greinarstúfi í Morgunblaðinu sem birtist í sumarbyrjun 1965 segir fréttaritari sem ekki lætur nafns síns getið, en er búsettur á Vagnsstöðum í Suðursveit.

„Því svo hefur sjórinn gefið mikið í þjóðarbúið, að ómögulega má ausa svo gengdarlaust úr skauti hans að til þurrðar gangi. Það sýnist þurfa að hafa á því fulla gát, að fiskimið lands vors verði ekki þurrkuð upp af þorski. Við skulum minnast orða skipstjórans á skozka togaranum, sem kom til Reykjavíkur á síðasta sumri. Hann var búinn að stunda linuveiðar á sínu skipi í 10 árin síðastliðin við suðurströndina hér, og sagði að nú væru 60% færri kynþroska fiskar en fyrir 10 árum. Og hvað verða þeir mörg prósent eftir næstu 10 árin með svona áframhaldi á veiðunum? Svo langt sem við hér höfum sagnir af rak alltaf á vetrum meira eða minna af fiski á fjörur, og oft heill bæði brimrotaður og selrifinn, en nú rekur ekki svo mikið sem hausbein úr þorski hér úr sjó, það er alveg eiðfært um það. Sýnir það gleggst af öllu hvað fiskilaust er nú orðið hér við ströndina. Fyrr á árum kom vanalega meiri eða minni fiskur með flóðum inn í Hornafjörðinn og dagaði þar uppi á fjörur og eyrar og upp að eyjum í firðinum og allt voru þetta oft margir hestburðir, en nú í mörg síðastliðin ár hefur ekki orðið vart við einn einasta fisk í Hornafirði.“

Hlunnindi

Svo virðist sem það hafi verið siður að ganga á fjörur og hirða brimrotaðan eða rekinn fisk. Þetta taldist til hlunninda fyrrum eins og segir á einum stað.

„Má því segja að byggðin liggi vel við til að notfæra sér margs konar hlunnindi, sem einkum bjóðast í nálægð sjávar svo sem fisk- og hvalreka á fjörur, eggjatöku, fuglaveiði, silungsveiði í ám og vötnum, lúruveiði út við suma ósa og síðast en ekki síst fiskveiðar í sjó. Flest byggðarlög Austur-Skaftafellssýslu hafa í gegnum tíðina notið góðs af einhverjum áðurnefndra hlunninda og mörg hver notið þeirra allra að einhverju marki.“

Hins vegar er þessi siður aflagður fyrir löngu og því fáar fréttir af brimrotuðum fiski. Nú er sjávarfang helst sótt í hillur stórmarkaða eða fiskborð.

Frásagnir eins og þessar, sem sótt er úr Morgunblaðinu frá árinu 2001, vitna því um það sem var, en skemmtilegar eru þær aflestrar.

Fiskur lá eins og hráviði um alla fjöru þegar þangað var komið og skiptu þúsundum. Mynd/Svanhildur Egilsdóttir
Fiskur lá eins og hráviði um alla fjöru þegar þangað var komið og skiptu þúsundum. Mynd/Svanhildur Egilsdóttir

„Meðallandsfjörur voru um langan aldur mesti strandstaður landsins og þar er voldugt brim og fallegar fjörur. Nú er lítið um fiskiskip í Meðallandsbugtinni, nema þegar loðnan fer þar um. Þar var að sjá sem borg væri mikinn hluta af árinu, allt fram yfir 1930. Ljósadýrð um nætur en reykir á daginn þegar mokað var á fírana undir kötlum togaraflotans frá Evrópu, sem fiskaði hér við sandana. En nú sést varla skip og aldrei rekur á fjörurnar brimrotaðan þorsk svo sem áður var.“