Frystitogarinn Brimnes RE er nýkominn í Smuguna í Barentshafi þar sem skipið ætlar að reyna fyrir sér á rækjuveiðum. Langt er síðan íslenskt skip fór síðast á rækju í Barentshaf.
Þegar Fiskifréttir höfðu samband við skipið í gærmorgun var það rétt að koma á miðin og ekki byrjað að dýfa trolli í sjó. Veiðar á þessu svæði er kvótalausar og frjálsar. Skip frá ýmsum löndum hafa verið að veiðum á þessum slóðum og veitt ágætlega en vegna þrálátrar norðanáttar dögum saman hafa þau hrökklast suður á bóginn undan ís.