Útgerðarfélagið Brim hefur selt togarann Höfrung III AK 250 til Rússlands og verður skipið afhent nýjum eigendum í september næstkomandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.
Kaupandi er Andeg Fishing Collective í Murmansk og er söluverð 5 milljónir bandaríkjadala – tæplega 650 milljónir króna.
Höfrungur var smíðaður í Noregi árið 1988, er 56 metra langur og 1.521 brúttótonn.
Þá hefur Brim keypt skipið Iivid af Arctic Prime Fisheries ApS fyrir 58 milljónir danskra króna sem er rúmur milljarður íslenskar krónur.
Iivid var smíðaður í Noregi árið 1999 og er 67 metra langur og 1.969 brúttótonn. Áætlað er að skipið muni koma í flota Brims í lok ágústmánaðar og mun fá nafnið Svanur RE 45.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim hf. er einnig í stjórn Arctic Prime Fisheries ApS.