Fiskistofa hefur birt yfirlit yfir aflahlutdeildir 100 stærstu útgerða landsins og einnig yfir 50 stærstu krókaaflaútgerðirnar. Tölurnar hafa verið uppfærðar frá því í september þegar upphafshlutdeild var birt, en breytingar hafa verið litlar í efstu sætunum enda bættist engin úthlutun í loðnu við þetta árið, ekki frekar en á síðasta ári.
Stærstu útgerðirnar, Brim hf. og Samherji ehf., eru með samtals 17,5% hlutdeild kvótans í stóra kerfinu, Brim með 10,13 prósent og Samherji með 7,02 prósent. Næst koma FISK-Seafood á Sauðárkróki með 5,48%, Síldarvinnslan í Neskaupstað með 5,22% og Þorbjörn í Grindavík með 4,8%.
Þessar fimm útgerðir eru því samtals með um þriðjung allra aflahlutvdeilda í stóra kerfinu.
Í krókaaflamarkskerfinu er Gunnur ehf. í Hafnarfirði stærst með 4,51%, Stakkavík ehf. næst með 4,09% og þá Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík með 4,07%.
Á vef Fiskistofu segir: „Fiskistofa hefur fylgst með fækkun útgerða sem ráða yfir hlutdeildum undanfarin ár. Frá fiskveiðiárinu 2005/2006 hefur þeim fækkað úr 946 í 446 nú í lok mars sl. eða um 500 útgerðir, en milli ára hefur þeim fjölgað aftur vegna úthlutunar á makríl og eru þær nú orðnar 693. Á bak við þessa fjölgun liggja ekki miklar hlutdeildir því að margar útgerðir sem eru nýjar á listanum eru þar vegna þess að þær ráða fyrir örlitlum hlutdeildum í makríl. Handhafar bæði aflamarkshlutdeilda og krókaaflamarkshlutdeilda, sem og makrílhlutdeilda á A- og B-flokki, eru hér taldir með.“
Fiskistofu ber að kanna hvort heildarhlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra útgerða fari yfir lögbundið hámark, og kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki nú.
Breytingar á lögum um tengda aðila voru fyrirhugaðar á þessu þingi en því hefur verið frestað eins og mörgum öðrum frumvörpum vegna Covid-19 faraldursins.