Útgerðarfélagið Brim hefur gengið frá samkomulagi um kaup á hlutabréfum í danska félaginu Polar Seafood Denmark A/S (PSD) fyrir 245 milljónir danskra króna eða um 4,6 milljarða íslenskra króna. Að auki hefur Brim skráð sig fyrir nýjum hlutum í danska félaginu að fjárhæð 380 milljónir danskra króna, eða um 7,2 milljarða íslenskra króna.
Heildarkaupverðið sem Brim greiðir er því 625 milljónir danskra króna eða sem nemur 11,9 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Að öllum fyrirvörum uppfylltum, mun Brim eignast 50% hlutafjár í PSD og aðrir eftirstandandi hlutir verða í eigu Polar Seafood Greenland A/S.
Í tilkynningu Brims til Kauphallarinnar er tekið fram að samningurinn sé háður hefðbundnum skilyrðum fyrir þessum viðskiptum, eins og samþykki viðkomandi yfirvalda.
Söluaðilinn í viðskiptunum eru félög í eigu Helge Nielsen, Bent Norman Petersen og Louise Schov Peterse. Kaup Brims eru gerð í gegnum nýstofnað danskt eignarhaldsfélag sem er alfarið í eigu Brims.
Polar Seafood Denmark er sölufyrirtæki, vinnsluaðili og útflytjandi villtra sjávarafurða úr Norður-Atlantshafi. Ársvelta ársins 2021 var 3,8 milljarðar danskra króna eða um 72 milljarðar íslenskra króna. Hagnaður PSD eftir skatta var 229 milljónir danskra króna eða sem nemur 4,3 milljörðum íslenskra króna.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims:
„Polar Seafood Denmark A/S er vel þekkt fyrirtæki með langa sögu í sölu sjávarafurða úr Norður-Atlantshafi. Reksturinn er traustur og starfsfólkið hefur víðtæka reynslu af því að þjóna alþjóðlegum mörkuðum með sjávarafurðir. Stofnun samstarfs við Polar Seafood Danmörku er jákvætt skref og mun styrkja sölunet okkar á sjávarfangi úr Norður-Atlantshafi.“
Við fullnustu samningsins mun Helge Nielsen láta af störfum sem framkvæmdastjóri hjá Polar Seafood Denmark A/S og Henrik Leth sem hefur starfað sem stjórnarformaður, mun taka við af honum sem framkvæmdastjóri félagsins (PSD).
Henrik Leth, stjórnarformaður Polar Seafood Denmark:
„Brim er kjörinn samstarfsaðili og ég hlakka til að þróa samstarf okkar áfram. Polar Seafood hefur sterkt sölunet sem mun styðja við rótgróið sölunet Brim, sérstaklega í Suðaustur-Asíu. Við erum jafningjar og við deilum sömu reynslu og gildum.“