Sníkjudýr sem breytir fiskholdi makríls í hálfgerðan graut er til rannsóknar hjá Norsku Hafrannsóknastofnuninni. Fyrirbærið er þekkt þar sem makríll er veiddur og unninn, en norsku vísindamennirnir hafa orðið varir við aukningu þessa óskemmtilega fyrirbæris í Norðursjó.

Norska Hafrannsóknastofnunin fjallar um sníkjudýrið í grein á heimasíðu sinni.Það ber ekki íslenskt heiti, en þessi sníkjudýrasýking í holdi makríls kallast Kudoa thyrsites á latínu. Sjá nánar hér.

Norskir vísindamenn hafa rannsakað fyrirbærið í 15 ár og án þess að lýsa því nákvæmlega hvernig sníkjudýrið hagar sér þá situr það í fiskholdinu og eftir að fiskurinn er dauður sleppir það frá sér ensími sem veldur því að fiskholdið linast upp og minnir á graut – enda er makríllin í þessu ástandi oft kallaður jellyfish sem er nokkuð lýsandi. Þetta gerist á 12 til 48 klukkustundum eftir að fiskurinn er veiddur.

Lucilla Giulietti, einn rannsakenda, segir að yfir rannsóknartímabilið hafi yfirleitt um eitt prósent af makríl sem veiðist í Norðursjó eyðilagst vegna þessa. Hins vegar hafi tilfellin verið þrisvar til sex sinnum algengari árin 2019 og 2020.

Samkvæmt upplýsingum Fiskifrétta féll hlutfallið aftur niður í eitt prósent í fyrra.

Tímabundið eða fyrirboði

Helst sést þetta óskemmtilega fyrirbæri í stórum makríl, eða þegar hann hefur náð 400 gramma stærð eða meira. Sníkjudýrið er mönnum ekki hættulegt en veldur skiljanlega vandræðum í makrílvinnslu þar sem sníkillinn eyðileggur hýsil sinn. Stór makríll er eftirsóttur og því eyðileggst hluti af verðmætustu afurðinni áður en hún er unnin.

Giuletti treystir sér ekki til að meta hvort þessi aukning í fiski úr Norðursjó er tímabundið fyrirbæri eða sé fyrirboði um varanlega aukningu á þessu hvimleiða vandamáli. Þó virðist liggja fyrir að þetta grautkennda ástand fisksins sýnir sig ekki nema kudoa sníkjudýrið sé fjölsetið í holdi fisksins.

Ný aðferð

Í greininni segir að norsku vísindamennirnir hafa þróað nýja aðferð til að greina hvort makríll er sýktur af sníkjudýrinu. Hingað til hefur makríll verið skoðaður um borð í hafrannsóknaskipunum en aðeins greinst þegar sníkjudýrið er búið að eyðileggja fiskinn.

Það má með sanni segja að sníkjudýrið gjöreyðileggur fiskinn. Mynd/Havforskningsinstituttet
Það má með sanni segja að sníkjudýrið gjöreyðileggur fiskinn. Mynd/Havforskningsinstituttet

Hins vegar er nýtt verkfæri nú í kistu vísindamannanna eða PCR próf, ekki ólíkt því sem nýtt er til að greina kórónuveiruna sem einhverjir muna eftir. Tekið er sýni við bakugga makrílsins og í því er nú hægt að greina sníkjudýrið óháð því hvort fiskurinn sýni þess einhver einkenni að vera smitaður. Þessi nýja rannsóknaraðferð eykur stórlega möguleika vísindamannanna til að kortleggja hversu algeng þessi sýking er í makrílstofninum.

Skýringa leitað

Ein þeirra skýringa sem vísindamennirnir velta fyrir sér varðandi aukningu sýkingarinnar í makríl í Norðursjó er stækkun stofnsins, sem hefur verið umtalsverð frá því að nefndar rannsóknir hófust. Á sama tíma hefur makríll breytt göngumynstri sínu sem Íslendingar þekkja vel. Sífellt meira af makríl sækir inn í Norðursjó frá suðlægum slóðum með hlýnandi sjó en þekkt er að sníkjudýr eru fleiri og algengari í hlýrra vatni en tegundum sem halda sig alfarið á norðlægari slóðum.

Stórar spurningar vakna við þessa vitneskju og nýtt rannsóknarverkefni er á teikniborðinu. Þar verður reynt að grafast fyrir um orsakir þessa ástands makrílsins og tíðni sýkinga. Nýja verkefnið einskorðast ekki við Norðursjó heldur þar sem makríllin fer um, bæði í Noregshafi og aðliggjandi hafsvæðum.

„Meðal annars munum við athuga hvort, og þá hvernig, aldur makrílsins tengist fjölgun kudoa sníkjudýrsins. Þá munum við skoða sérstaklega ástand makrílsins á þeim hafsvæðum sem göngur hans hafa teygt sig til á síðustu árum,“ segir Giulietti í greininni. Rannsóknin verður samstarfsverkefni vísindamanna innan norsku Hafrannsóknastofnunarinnar, annarra vísindamanna í Noregi og alþjóðlega.

Þess má geta að samkvæmt upplýsingum Fiskifrétta er þetta ástand makríls þekkt í afla sem er landað hérlendis. Það er sjaldgæft en réttlætir að sérstaklega sé með þessu fylgst, t.d. í sérstöku rannsóknaverkefni sem stýrt væri af þeim sem gerst þekkja.

Áhugavert telst að sníkjudýrið greinist í mun hærra hlutfalli makríls en þess sem eyðileggst eftir að hann er dauður. Hér sést munurinn á heilbrigðum og sýktum fiski vel. Mynd/Havforskningsinstituttet
Áhugavert telst að sníkjudýrið greinist í mun hærra hlutfalli makríls en þess sem eyðileggst eftir að hann er dauður. Hér sést munurinn á heilbrigðum og sýktum fiski vel. Mynd/Havforskningsinstituttet