Skinney-Þinganes á Höfn hefur selt hlut sinn í niðurverksmiðjunni Ajtel Iceland. Kaupandi er meðeigandi Skinneyjar-Þinganess, pólska matvælafyrirtækið Ajtel, sem verður eini eigandi verksmiðjunnar á Höfn. Samhliða var gerður samningur um hráefni til niðursuðunnar frá Skinney-Þinganesi. Að auki fær verksmiðjan hráefni frá Síldarvinnslunni og fleiri aðilum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ajtel Iceland.

Nýr stjórnarformaður Ajtel Iceland er Sævar Þór Jónsson lögmaður en framkvæmdastjóri verður áfram Jón Áki Bjarnason.

Niðursuðuverksmiðjan Ajtel Iceland tók til starfa á Höfn í janúar 2011 og hefur Jón Áki verið framkvæmdastjóri síðastliðin tvö ár. Að jafnaði starfa 12 manns við niðursuðuna en fjölgar í 16 í vertíðarlotum. Verksmiðjan framleiðir 6 milljónir dósa á ári, en áform eru um að efla starfsemina og auka framleiðsluna í 10 milljónir dósa.

Ajtel Iceland sýður einkum niður þorskalifur en að auki hefur fyrirtækið unnið að vöruþróun á öðrum innmat til niðursuðu, þar á meðal hrognum og svilum.

„Við höfum verið að prófa okkur áfram með niðursuðu á lifrarpaté og það hefur fengið mjög góðar viðtökur. Aðallega er patéið unnið úr þorskalifur, en einnig úr skötusel. Markaðurinn lofar mjög góðu, því þetta er ekki aðeins mjög gott paté, heldur hafa margir snúið baki við anda- og gæsalifrarpaté vegna þess dýraníðs sem fylgir framleiðslunni,“ segir Jón Áki Bjarnason framkvæmdastjóri.

Pólska matvælafyrirtækið Ajtel hóf samstarf við Skinney-Þinganes um niðursuðuverksmiðjuna árið 2010 og lét gjaldeyrishömlur ekki hindra sig. Ajtel kom með þekkingu, tækjabúnað og markaðinn, meðan Skinney-Þinganes sá um húsnæði og hráefni. Verksmiðjan var komin í fullan rekstur í janúar 2011.

Jón Áki segir að reksturinn hafi gengið vel og menn horfi björtum augum til framtíðar þó ákveðin sölutregða hafi verið í Rússlandi og Úkraínu. Opið er fyrir sölu til Rússlands en kaupendur þar eiga í vandræðum með að afla sér gjaldeyris. Jón Áki telur að markaðurinn nái jafnvægi strax á næsta ári.

Ajtel er umsvifamikið matvælafyrirtæki sem m.a. selur lax til Ikea um alla Evrópu. Um 90% sölunnar er utan Póllands og fást vörur Ajtel til að mynda í stórverslunum Aldi og Carrefour.