Stærstur hluti þess fisks sem Bretar veiða sjálfir er fluttur úr landi, en á hinn bóginn er megnið af fiskinum sem þeir borða innfluttur.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Seafish stofnunarinnar í Bretlandi sem annast upplýsingamiðlun um sjávarútveg.
Á síðasta ári fluttu Bretar út sjávarafurðir fyrir 982 milljónir sterlingspunda en keyptu til landsins fiskafurðir fyrir 1,9 milljarða punda.
Tegundir eins og krabba- og skeldýr eru að mestu leyti fluttar út, auk lax, síldar og makríls. Stærstu útflutningslöndin fyrir breskar sjávarafurðir eru Frakkland og Spánn.
Bretar eru ólíkir þjóðunum á meginlandinu að því leyti að þeir kjósa fremur fisk með mildu bragði. Vinsælustu fisktegundirnar í augum breskra neytenda eru þorskur, ýsa og túnfiskur. Sem kunnugt er kemur þorskurinn og ýsan að stórum hluta frá Íslandi, Noregi og Færeyjum auk afla af breskum skipum.