Norðurlöndin hafa tekið höndum saman og sett á laggirnar svokallað norrænt gæðaráð fyrir fiskimjöl og olíu; Nordic Centre of Excellence in Fishmeal and – oil. Með samstarfinu er stefnt að því að styrkja norrænt samstarf og auka þekkingu á gæðaeiginleikum fiskimjöls og lýsis.

Með stofnun norræna gæðaráðsins er ætlunin að koma norrænni framleiðslu á fiskimjöli og lýsi í fremstu röð og tryggja þannig framboð af öruggu og gæða fiskimjöli og lýsi til fóður- og fæðugerðar.

Frá þessu sagði í stuttri frétt á vef Matís nýlega en fiskimjöls- og lýsisframleiðsla hefur í gegnum tíðina leikið stórt hlutverk í fiskvinnslu Norðurlanda. Vinnsluaðferðirnar hafa lítið breyst á undanförnum áratugum, en á sama tíma hefur próteinþörf á heimsvísu, auk krafna um bætta nýtingu hráefnis, aukin gæði afurða og minnkun úrgangsefna, snaraukist, segir þar. „Í ljósi þessara breytinga og stöðunnar sem varað hefur síðastliðinn áratug, er nauðsynlegt að taka höndum saman og blása lífi í framleiðslu á hágæða fiskimjöli og lýsi enda næringarfræðilegur ávinningur augljós af því að slíkar afurðir skiluðu sér í fóður- og fæðukeðjur.“

Örar breytingar

Hagsmunaaðilar í vinnslu fiskimjöls og lýsis hittust í Hirtshals í Danmörku fyrir tæpum tveimur árum. Þar komu þessar áherslur fram og samstarfið sem hér er nefnt að ofan á að hluta til rætur að rekja til þess fundar. Fjallað var um málið í Eurofish Magazine það ár en ráðstefnan var skipulögð af Nordic Marine Think Tank og EUFishmeal með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Fyrir liggur að fyrirtæki sem framleiða mjöl og lýsi þurfa að bregðast við örum breytingum. Má nefna að á sama tíma og einn helsti kaupandinn – fiskeldið – eykur framleiðslu sína hröðum skrefum þá eru fóðurframleiðendur að nota sífellt minna af fiskimjöli og lýsi í fóðurframleiðslu sína. Ástæðan er einfaldlega sú að önnur hráefni hafa komið inn á markaðinn til fóðurframleiðslu. Hin hliðin á peningnum er að eftirspurn eftir mjöli og lýsi eykst stöðugt frá öðrum og ólíkum kimum iðnaðarframleiðslu; til snyrtivöru-, lyfja- og bætiefnaframleiðslu. Svo er það staðreynt að framboð og verð á þessum afurðum er sífellt að taka breytingum, þó ástæður þess liggi ekki alltaf á lausu. Því liggur fyrir að greinin þarf að afla upplýsinga til að bregðast við óvissunni sem virðist alltaf vera mikil.

Langstærsti hluti þess fiskimjöls sem framleiddur er á Íslandi, yfir 75% allrar framleiðslunnar, er seldur til Noregs og fer nær eingöngu í fóðurframleiðslu fyrir fiskeldi. Miklar sveiflur hafa verið í hráefnismóttöku fiskmjölsverksmiðja á síðustu árum og þess vegna miklar sveiflur í framleiðslu og útflutningsverðmætum, sem telja í tugum milljarða ár hvert.

Mjöl til manneldi

Verð á mjöli féll fyrir ekki svo löngu síðan um rúmlega helming á aðeins þriggja ára tímabili – var 2.400 dalir tonnið í júní 2014 en ellefu hundruð dalir réttum þremur árum seinna. Var þar helst um að kenna að mjöl úr soya baunum var notað í fisk- og dýrafóður í mun meira mæli en áður var. Í grein Eurofish Magazine er nefnt að fiskimjöl til dýraeldis með rétta næringarefnasamsetningu var, og er, þó mun hærra. Fari hins vegar mjölið til manneldis er verðið svo aftur margfalt hærra, svo hvatinn til þess að finna nýjar og betri leiðir í framleiðslu fiskimjöls er svo sannarlega til staðar fyrir framleiðendur á norðlægum slóðum sem annars staðar.