Eftir að norsk-íslenski síldarstofninn hrundi þá varð loðna helsti nytjastofninn fyrir íslenska uppsjávarflotann en seinna bættust við veiðar á kolmunna, síld og fyrir hálfum öðrum áratug varð makríll mikilvægur nytjastofn.
Ofveiði á fiskistofnum er því miður víða viðvarandi vandamál. Kaupendur sjávarafurða gera því almennt og vaxandi kröfu um að sjávarafurðir eigi uppruna í sjálfbærum veiðum. Vottun á fiskveiðum samkvæmt staðli Marine Stewardship Council (MSC) hefur verið og er notuð sem tæki til að staðfesta sjálfbærni fiskveiða.
Fyrstir í heiminum
Í upphafi voru það mest kaupendur í Evrópu og í Bandaríkjunum sem hófu að gera þessar kröfur en á síðustu árum hefur vitundarvakning orðið til þess að boðskapur sjálfbærni hefur breiðst út. Á síðasta áratug hafa stórmarkaðir í Asíu gert vaxandi kröfur um vottun. Japanski stórmarkaðurinn Aeon hefur haft frumkvæði að kynningu á MSC vottuðum sjávarafurðum í Japan. Fyrirtækið var stofnað árið 1758 í Japan og hjá því starfa um 500.000 manns, en fyrirtækið rekur um 20.000 verslanir í Japan og víðar í Asíu.
- MSC vottuð loðna kynnt í verslun í Japan. Mynd/Halldór Elís Ólafsson
Ísland varð fyrst í heiminum til að fá MSC vottun á loðnu og var það árið 2017. Það sama ár fór Aeon að kynna MSC vottaða íslenska loðnu sérstaklega ásamt MSC vottuðum túnfiski úr Kyrrahafi. Loðnuleysisárin tvö settu strik í þessa vinnu en nú þegar aftur var veidd loðna árið 2021 og 2022 þá hélt kynningarvinnan áfram. Í nýlegri kynningu hjá Aeon kemur skýrt fram að bæði er þetta loðna úr MSC vottuðum veiðum en eins að uppruninn er íslenskur. Til að toppa þetta þá var ferskri loðnu flogið inn eins og
kynnt hefur verið hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum og íslenski sendiherrann í Japan, Stefán Haukur Jóhannesson, sem raunar er Eyjamaður,
kom af þessu tilefni í heimsókn í verslun Aeon í Japan. Frá þessu er greint í skemmtilegri umfjöllun á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar. Fyrir MSC var það ánægjulegt að þarna var loðnan merkt bæði upprunalandinu Íslandi og MSC.
Bundin samkomulagi
Veiðar á uppsjávarfiski eru oftar en ekki alþjóðlegar veiðar. Nú hefur um langa hríð ekki náðst strandríkjasamkomulag í norsk íslenskri síld, makríl og kolmunna og heildarafli verið umfram ráðgjöf. Af þeim sökum felldu vottunarstofur niður MSC vottun á þessum veiðum. Íslenska loðnan hefur aftur á móti verið bundin strandríkjasamkomulagi frá því fyrir aldamótin, en þar koma að málum þrjú strandríki, þ.e. Ísland, Noregur og Grænland. Að auki fá Færeyjar samkvæmt sérstöku samkomulagi um 5% af íslensku aflaheimildunum. Af þessum ástæðum og fleirum þá er loðnuveiðar ein af fáum fiskveiðum sem standast skilyrðislaust MSC fiskveiðivottun.
- Gísli Gíslason
Á Íslandi hefur félagið Icelandic Sustainable Fisheries (ISF) sótt um og haldið utan um MSC fiskveiðivottanir. Sá félagsskapur telur um 70 fyrirtæki en alls eru ríflega 200 staðir á Íslandi með rekjanleikavottun samkvæmt staðli MSC. Í ár fengu Færeyingar MSC vottun með eigin skírteini, en Norðmenn og Grænlendingar fengu aðgang að Íslenska skírteininu. Þannig eru strandríkin þrjú sem vinna saman í einu fiskveiðiskírteini sem ISF heldur utan um. Ennþá er það þannig að MSC vottun er einvörðungu á þeirri loðnu sem veiðist við Ísland.
Höfundur er svæðisstjóri Marine Stewardship Council (MSC) í Norður–Atlantshafi.