„Við sáum þarna loðnu nokkuð víða, bæði kynþroska og ókynþroska,“ segir Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri í septemberleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar.

„Mesta magnið virtist liggja í Grænlandssundi, og eins og vaninn er þá er ungloðnan mest suðvestantil og meira kynþroska hlutinn norðan til.“

Bæði rannsóknarskipin, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, sigldu um hefðbundnar loðnuslóðir við Grænland, allt frá Angmagsalik og vel norður fyrir Scoresbysund.

Í tilkynningu fyrr í vikunni sagði stofnunin fyrirséð að hún muni nú leggja til aukningu aflamarks þegar niðurstöður liggja fyrir, en endanleg ráðgjöf fyrir næstu vertíð verður birt á morgun, föstudag.

Enginn rekís

Hafís var ekki mikið til trafala þetta árið, þannig að þrátt fyrir tafir vegna veðurs náðist að sigla um megin útbreiðslusvæði loðnunnar.

„Það var eiginlega enginn rekís að flækjast fyrir okkur, sem var mjög til trafala í fyrra. Við vorum einmitt að sjá talsvert af loðnu á þessum svæðum sem ís þakti síðasta haust.“

Hann segir vel mögulegt að loðna hafi leynst þar í fyrra þótt ekki hafi verið hægt að sjá hana.

„Það myndi líka passa miðað við að við mældum miklu meira síðasta vetur. Þannig að einhvers staðar var hún.“

Ráðgjöf síðasta árs hljóðaði upp á 127.000 tonn. Þar af veiddu íslensku skipin rúm 70.000 tonn af loðnu, sem er frekar lítið í sögulegu samhengi en var þó útgerðinni kærkomið eftir tveggja ára loðnubrest.

Upphafsráðgjöf fyrir loðnuvertíðina 2021/2022 var sú að veiða mætti allt að 400 þúsund tonnum. Hafró segir að sú ráðgjöf hafi verið varfærin, en nú er ljóst að þær væntingar munu standast.

Kaldari sjór

Birkir segir ekkert hægt að fullyrða með óyggjandi hætti um það hvað veldur sveiflum á loðnustofninum frá ári til árs, en einhverjir umhverfisþættir hljóti þó að liggja að baki.

„Núna í sumar hefur verið óvenju mikil útbreiðsla á köldum sjávarmössum fyrir norðan land, og það má velta fyrir sér hvaða tengsl eru þar. Að minnsta kosti hafa greinilega komið upp aðstæður sem gefa góða nýliðun.“

Hann nefnir að loðnan sem fannst í leiðangrinum hafi virst vera aðeins seinna í kynþroska heldur en undanfarin ár á þessum árstíma.

„Hún er að þroska egg og svil aðeins hægar og það getur verið áhugavert. Það má velta fyrir sér hvort það sé ekki tengt stærð árgangsins, það er að þéttleikinn hafi áhrif á fæðuframboð, en svo er líka spurning um í hvaða umhverfi hún hefur verið. Hvort hún hafi verið í kaldari sjó en áður.“