Hampiðjan hefur lagt mikla áherslu á að safna saman notuðum veiðarfærum, flokka þau í efnisflokka og koma til endurvinnslu. Nú er búið að finna endurvinnsluleiðir fyrir öll þau efni sem notuð eru í veiðarfæri að undanskildum tveim kaðlagerðum sem eru úr blönduðum plastefnum en nýjar blöndur sem leysa það vandamál koma á markaðinn í byrjun næsta árs.

Helstu samstarfsaðilar Hampiðjunnar eru Plastix í Danmörku sem tekur við öllu polyethylene trollefni og Polivektris í Litháen sem endurvinnur nylon ásamt norska fyrirtækinu Nofir. Þessi fyrirtæki hreinsa notaða veiðarfæraefnið, bræða það að nýju og búa til plastkorn sem selt er til framleiðenda sem búa til nýja þræði úr endurunna efninu eða steypa úr því hluti.

Plastkorn unnin úr notuðum veiðarfærum.
Plastkorn unnin úr notuðum veiðarfærum.

Það er alltaf afar forvitnilegt að vita hvar endurunnu efnin fá nýtt líf og nú hefur þýski bílaframleiðandinn BMW ákveðið að nota efni úr endurunnum trollum í nýju rafbílalínuna sína, Neue Klasse, sem verður kynnt árið 2025. Til að byrja með verður plastefni í innréttingum og ýmiss konar listum og öðru utan á bílunum um 30% en stefnt er að hærra hlutfalli á komandi árum.

Frá þessu er greint í kynningarefni BMW. Þar kemur fram að notuðum veiðarfærum sé safnað saman á skilvirkan hátt í höfnum um allan heim til að fyrirbyggja að plastefnið endi í hafinu. Til mikils sé að vinna því endurunnu plastefnin hafa 25% lægra kolefnisfótspor en þau sem framleidd eru ný frá grunni. BMW hyggst leita allra leiða við framleiðslu sína til að freista þess að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið og að nýta endurunnin veiðarfæri er hluti af því.

Að sögn talsmanns BMW er endurunnið nylon grunnurinn að framleiðslu fyrirtækisins á gólfmottum fyrir BMW iX og nýjungina BMW X1. Endurunna efnið ber nafnið Econyl og það er framleitt af fyrirtækinu Aquafil í Slóvakíu úr plastkorni sem kemur frá Polivektris og Nofir í Litháen.
Endurunna polyethylene plastkornið sem BMW kemur til með að nota í lista, innréttingar og aðra plasthluti rafbílanna kemur frá danska fyrirtækinu Plastix. Hægt er að nota efnið við framleiðsluferli bíla á margvíslegan hátt enda er það plastefni sem notað er í trollnetin í háum gæðaflokki . Stjórnendur BMW Group hafa sett sér það markmið að endurunnin efni í bílum félagsins, sem nú eru um 20%, verði a.m.k. 40% árið 2030.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, fagnar framtaki BMW og segir að það sé í samræmi við umhverfisstefnu Hampiðjunnar.
,,Öll notuð veiðarfæri sem við tökum við og flokkum fyrir viðskiptavini okkar fara nú í endurvinnslu hjá Plastix í Danmörku og Polivektris í Litháen þannig að það er nokkuð víst að okkar efni endar í BMW í framtíðinni. Við, útgerðarfyrirtæki og sjómenn getum glaðst yfir því að notuðu veiðarfærin okkar fái nýtt líf í gæðabílum BMW, ” segir Hjörtur ennfremur.