Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE landa báðir í Vestmannaeyjum í dag. Vestmannaey er með 70 tonn og Bergur með 50 tonn af blönduðum afla. Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, segir að veður hafi gert mönnum erfitt fyrir.

„Veðrið var leiðinlegt, þetta var einfaldlega vetrarveður sem stríddi okkur töluvert. Við byrjuðum túrinn í karfa á Sneiðinni og á milli Gjáa en veiðin þar var heldur róleg. Síðan var endað á Pétursey og Vík í þorski og ýsu. Túrinn tók tæplega þrjá sólarhringa. Við reiknum með að halda til veiða á ný strax að löndun lokinni eða í hádeginu í dag,“ segir Ragnar.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey tók undir með Ragnari hvað veðrið varðaði.

„Veðrið var hundleiðinlegt í veiðiferðinni. Á laugardag var austan 20-25 metrar og síðan fór hann í rúmlega 31 metra um kvöldið. Þetta er fullmikið fyrir okkur. Annars var túrinn kvótavænn, en í honum fékkst blandaður afli. Mest var veitt af löngu. Að þessu sinni var verið að á Selvogsbanka, Háadýpi og Vík. Við komum inn í gærkvöldi en það var landað í morgun og haldið til veiða strax að löndun lokinni klukkan átta í morgun,“ segir Egill Guðni.