Í sjórétti gilda sérreglur um skyldu til að bjarga þeim sem lenda í sjávarháska og rétt björgunaraðila til björgunarlauna. Tilgangurinn með reglunum um björgunarlaun er að hvetja til björgunar verðmæta og stuðla að því að björgunarmenn geri sitt ýtrasta í þeim efnum án þess að stofna sér í hættu.
Við slíkar aðstæður hefur skipstjóri og útgerð skips umboð til að gera björgunarsamning fyrir hönd skips og farms en leggja skal björgunarreglur siglingalaga nr. 34/1985 til grundvallar ef ekki er um annað samið. Í þessari grein verður stiklað á helstu atriðum við ákvörðun björgunarlauna eftir ákvæðum siglingalaga þegar samningur liggur ekki fyrir en óskað hefur verið eftir björgun af hálfu skipstjóra eða útgerðar skips í neyð. Aftur á móti verður ekki vikið að annars konar aðstoð við skip í vanda.
Réttur til björgunarlauna
Björgun er sérstaklega skilgreind í siglingalögum sem „sérhver athöfn sem hefur það að markmiði að hjálpa skipi eða öðru lausafé sem farist hefur eða er statt í hættu á hvaða haf- eða vatnasvæði sem er.“ Þátttaka í björgun á skipi eða farmi getur því skapað rétt til björgunarlauna en þau skilyrði eru sett að hið bjargaða skip hafi verið statt í hættu og björgunin borið árangur.
Þá verður hættan að vera meiri en venjuleg hætta sem að jafnaði fylgir siglingum. Einfalt dæmi um hættu er ef skip er vélarvana eða strandað og áhöfn getur ekki komið vél þess í gang. Ef áhöfnin hefði getað komið vélinni í gang þá er hætta ekki talin hafa verið til staðar.
Líkt og fyrr segir þarf björgun einnig að bera árangur þar sem fjárhagslegum verðmætum er bjargað en um er að ræða svokallaða „no cure, no pay“ meginreglu sjóréttarins. Þannig gildir að ef strandað skip sekkur við björgunaraðgerðir þá fellur réttur til björgunarlauna niður.
Hafa ber í huga að útgerðin og hin eiginlega skipsáhöfn viðkomandi björgunarskips á réttinn til björgunarlauna en ekki skipverjar sem eru í leyfi eða forfallaðir í landi þegar björgunin fer fram. Hér getur verið um að ræða útgerðir og áhafnir eins eða fleiri skipa sem komu að björgunaraðgerðum en einnig falla hér undir skip í eigu Landhelgisgæslu Íslands og björgunarsveita.
Ákvörðun björgunarlauna
Ef skilyrði björgunar eru talin uppfyllt er næsta skref að ákveða fjárhæð björgunarlauna en siglingalögin gera greinarmun á því hvort að skip hafi verið statt í „yfirvofandi hættu“ eða aðeins í slíkri hættu að það gat ekki komist til hafnar fyrir eigin vélarafli. Þessi stigsmunur hefur áhrif á hvaða atriði eru lögð til grundvallar út frá ákvæðum siglingalaga og þar með fjárhæð björgunarlauna út frá þeim aðstæðum sem voru fyrir hendi við björgunina. Ef horft er á úrlausnir dómstóla þá virðist þar lagt hlutlægt mat á kringumstæður miðað við þær upplýsingar sem fram koma í tengslum við það atvik sem um ræðir.
Þegar skip er talið hafa verið statt í „yfirvofandi hættu“ þá koma ýmis atriði til skoðunar en í framkvæmd má ætla að verðmæti hins bjargaða vegi þyngst þar sem björgunarlaun eru reiknuð sem hlutfall af verðmæti hins bjargaða út frá ástandi þess við lok björgunaraðgerða, þ.e. markaðsverð á björgunarstað að frádregnum viðgerðarkostnaði. Sé skip hins vegar í slíkri hættu að það komist ekki til hafnar með eigin vélarafli eru björgunarlaun einkum ákvörðuð á grundvelli tilkostnaðar og tekjutaps björgunarmanns og veltur á atvikum hverju sinni hvort önnur atriði komi til skoðunar.
Í samræmi við framangreint þá ræðst fjárhæð björgunarlauna af atvikum hverju sinni ásamt því að dómaframkvæmd gefur mikilvægar og nauðsynlegar upplýsingar við slíkt mat, en reglur um björgun hafa verið mjög svipaðar allt frá því þær voru fyrst lögfestar með siglingalögum hér á landi árið 1913.
Siglingalögin kveða einnig á um mögulegan rétt björgunarmanns til sérstakrar þóknunar ef hætta hefur verið á umhverfistjóni við björgun skips en miðað er einkum við að þóknunin sé jafnhá kostnaði við björgunaraðgerðina. Hins vegar þurfa slíkar aðgerðir ekki að hafa borið árangur svo réttur til slíkrar þóknunar stofnist og gildir því ekki fyrrnefnd meginregla um „no cure, no pay“.
Ábyrgð á greiðslu og skipting björgunarlauna
Það er á ábyrgð eiganda hins bjargaða skips, og eigenda annars lausafjár sem bjargað var, að greiða björgunarlaun í hlutfalli við verðmæti hinna björguðu eigna þeirra. Í þeim efnum ber að hafa í huga að björgunarmaður getur krafist þess að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu björgunarlauna og óheimilt er án samþykkis björgunarmanns að flytja á brott hin björguðu verðmæti þar til nægjanleg trygging hefur verið sett.
Eftir útgreiðslu björgunarlauna skiptir útgerð björgunarskipsins þeim á milli sín og áhafnar og er útbúin skiptaáætlun sem send er til þeirra sem eiga hlutdeild. Aftur á móti er fyrst greitt fyrir tjón sem varð á björgunarskipi og farmi ásamt útlögðum kostnaði, t.d. eldsneyti og laun áhafnar. Eftirstöðvar skiptast þannig að útgerðin fær 3/5 og áhöfnin 2/5 og skiptist hlutur áhafnar þannig að skipstjóri fær 1/3 hlut og aðrir skipverjar 2/3 hlut.
Í þeim tilvikum þar sem sérstök þóknun hefur verið greidd vegna umhverfistjóns þá fer hún að fullu til útgerðarmanns skips en áhöfnin fær enga hlutdeild í slíkri þóknun.
Að endingu er rétt að taka fram að LOGOS tekur þátt í Íslensku sjávarútvegssýningunni 2022 sem verður haldin dagana 8.-10. júní nk.
Höfundar greinarinnar eru Einar Baldvin Axelsson, lögmaður og meðeigandi á LOGOS og Bjarki Ólafsson, lögmaður og verkefnastjóri á LOGOS.