Fimm manna áhöfn var bjargað úr sökkvandi dragnótabát við Lófót í Norður-Noregi í gær. Björgunarsveitarmenn segjast ekki hafa tekið þátt í jafn erfiðri björgunaraðgerð á ferlinum. Frá þessu er skýrt á vef RÚV.
Dragnótabáturinn Kim Roger er 27 metra langur. Honum var siglt frá Lófót eyjaklasanum. Í morgun barst tilkynning um að vél bátsins hefði stöðvast þar sem mjög vont væri í sjóinn. Ekki var fullvíst af hverju það hefði gerst - líklega hefði net flækst í skrúfu bátsins. Mikill vindur var á hafsvæðinu og ölduhæðinn 4-5 metrar.
Þegar björgunarþyrla kom á vettvang var komin 90 gráðu slagsíða á bátinn og áhöfnin hélt dauðahaldi í borðstokkinn. Tveir þeirra fóru þá í sjóinn. Þegar búið var að hífa þá um borð í björgunarþyrluna fóru hinir þrír einnig í sjóinn og var einnig bjargað um borð í þyrluna. Ekki leið langur tími eftir það þar til báturinn sökk.
Aðgerðastjórinn á vettvangi - Per Johan Odegaard - segir að án nokkurs vafa hafi þetta varið átakamesta björgunaraðgerð á hans ferli.
Sjá myndband af aðstæðum á slysstað á vef norska sjónvarpsins NRK