Norðmenn ætla  að stórauka sölu á norskum fiski inn á Bretlandsmarkað og beita ýmsum aðferðum til þess að ná því markmiði. Þeir hafa meðal annars beint sjónum sínum að fish&chips stöðunum og hafa efnt til samkeppni  meðal þeirra þar sem eitt tonn af þorskflökum að verðmæti um ein milljón íslenskra króna er í verðlaun.

Í samkeppnina hafa verið valdir um 500 fish&chips staðir og fá þeir kynningargögn um ágæti þorsks og ýsu frá Noregi, um hollustu og bragðgæði matarins og sjálfbærni veiðanna. Sá fish&chips staður sem leggur fram hugvitsömustu kynninguna hreppir verðlaunin. Að auki er í boði frí fjölskylduferð til Noregs.

Frá þessu er skýrt á breska sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com. Að baki þessari kynningu stendur fiskútflutningsráð norska sjávarútvegsins, Norway Seafood Council, en það hefur jafnvirði sex milljarða íslenskra króna árlega til ráðstöfunar til kynningar á norsku sjávarafurðum um víða veröld.

Eins og kunnugt er hafa íslenskir fiskútflytjendur verið með stærstu birgjum fish&chips staðanna um langan aldur. Staðirnir eru um 10 þúsund um allt Bretland og framreiða um 300 milljónir máltíða á hverju ári.