„Umskiptin sem ég sá og skynjaði í bandarísku samfélagi komu þægilega á óvart og lofa góðu,“ segir Albert Erluson, framkvæmdastjóri Hólmaskers ehf. í Hafnarfirði sem er nýkominn heim af stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku, The Boston Seafood Show.

Þetta kemur fram í spjalli við Albert á vef Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

„ Deyfð, drungi og samdráttareinkenni í efnahagslífi í Boston og nágrenni í mars í fyrra höfðu vikið fyrir mjög auknum umsvifum og bjartsýni. Ég kom því heim núna með allt aðra og betri tilfinningu í maganum en gera mátti ráð fyrir,“ er haft eftir Alberti. Viðskiptasambönd hafi verið styrkt og Vinnslustöðvarmenn hafi hitt fulltrúa fyrirtækja sem vanti fisk til að selja, bæði ferskan og frosinn. „Þar gætu orðið við ný viðskiptatengsl.“

Austurströndin mikilvægust

Albert segir austurströnd Bandaríkjanna vera helsta markaðssvæði Vinnslustöðvarinnar. Það sé í grófum dráttum frá New York austur um ríkin Massachusetts, New Hampshire og Maine. Ekki megi gleyma Flórída en þangað hafi heldri borgarar flutt af austurstöndinni og vilja getap gengið að ýsu á matseðlum veitingahúsa og í fiskborðum stórmarkaða.

Fram kemur að Vinnslustöðin keypti 75% hlut í Hólmaskeri af hjónunum Alberti Erlusyni og Jóhönnu Steinunni Snorradóttur árið 2021. Þau eigi 25% hlut í fyrirtækinu.

Albert ræðir miklar sveiflur þegar verð tók að hækka á COVID-tímanum og lækkaði síðan aftur undir það sem var fyrir COVID.

Peningaprentun í COVID

„Verðhækkunina skýri ég helst með peningaprentun og því að fólk hafði hægt um sig og ferðaðist ekki á COVID-tímanum. Það hafði óvenju mikla fjármuni úr að spila og vildi gera vel við sig í mat. Svo gjörbreyttust aðstæður 2023. Peningaprentun var hætt, vextir hækkuðu, bensínverð rauk upp, húshitunarkostnaður sömuleiðis og öll matvara,“ segir Albert.

Að sögn Alberts var áfall að fara um kunnuglegar slóðir í Boston þegar hann heimsótti borgina til að sækja Boston Seafood í mars í fyrra.

Heimavinnandi borða ekki á veitingarstöðum

„Ég staldra sérstaklega við vinnustaðamenninguna sem til varð í COVID og áfram við lýði 2023. Fólk fór að vinna heima hjá sér, sjálfviljugt eða að ósk atvinnurekandans, og hélt því áfram að faraldri loknum. Heimavinnandi fólk fer ekki á veitingahús í hádeginu og ég er á því að þessi breyting lífshátta hafi beinlínis hægt á sjálfu efnahagslífinu,“ segir Albert meðal annars um það á vsv.is.

Nú hafi blasað við önnut mynd. „Boston er komin að minnsta kosti hálfa leið í átt að því sem borgin áður var,“ segir Albert.

Útlit á markaði Hólmaskers/VSV vestan hafs sé giska gott. Fleira komir til sem auki bjartsýni varðandi fisksöluna.

Brotthvar Rússafisks gagnast

„Bandarísk stjórnvöld bönnuðu á sínum tíma innflutning á fiski frá Rússlandi en bannið náði ekki til viðskipta gegnum þriðja aðila. Til Bandaríkjanna hefur því borist fiskur sem Rússar veiða, frysta, flytja til Kína til vinnslu og frystingar á ný,“ er haft eftir Alberti. Nú hafi verið hert var á banninu á dögunum með því að það tæki líka til sölu gegnum þriðja aðila. Við blasi algjört viðskiptabann á þessum tvífrysta fiski sem flætt hafi til Bandaríkjanna í stórum stíl á verði sem sé langt undir því sem Vinnslustöðin geti boðið.

„Ómögulegt er að ímynda sér annað en að áhrif þessa verði þau að áhugi fyrir fiskinum okkar vaxi og spurn eftir honum aukist,“ segir Albert Erluson á vef Vinnslustöðvarinnar þar sem lesa má nánar um málið.