Björgunarvestum með AIS-senditækjum til GPS-staðsetningar hefur verið komið um borð í skip Vinnslustöðvarinnar, ætluðum öllum í áhöfnum þeirra til aukins öryggis á sjó. Fjallað er um þetta framfaraspor á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Sjálft senditækið lætur lítið yfir sér en getur ráðið úrslitum um farsæla björgun ef sjómaður fellur útbyrðis. Það er fest í björgunarvesti og innan 15 sekúndna frá því maður er kominn í sjóinn fer tækið að senda sjálfvirkt frá sér neyðarmerki sem heyrist í talstöðvum um borð í viðkomandi skipi og kemur samstundis líka fram á radar annarra skipa sem kunna að vera að veiðum í grenndinni.

Framkvæmdastjórarnir Einar Gylfi Haraldsson hjá Viking björgunarbúnaði í Hafnarfirði og Grímur Guðnason hjá Pétó slökkvitækjaþjónustu í Vestmannaeyjum. Myndir/VSV
Framkvæmdastjórarnir Einar Gylfi Haraldsson hjá Viking björgunarbúnaði í Hafnarfirði og Grímur Guðnason hjá Pétó slökkvitækjaþjónustu í Vestmannaeyjum. Myndir/VSV

Mestu máli skiptir auðvitað í björgunaraðgerðum að alltaf er nákvæmlega vitað hvar í sjónum manninn er að finna. Sendirinn er því sannkallaður bjargvættur í vesti.

Eyjamenn sinna vel öryggismálum

Vinnslustöðin keypti björgunarvestin og senditækin af Pétó ehf. slökkvitækjaþjónustu, fyrirtæki Gríms Guðnasonar og Eyglóar Kristinsdóttir í Vestmannaeyjum. Innflytjandi vesta og tækja er Viking björgunarbúnaður ehf. Senditækið er breskt, lítið og nett, og heitir MOP. Sú skammstöfun stendur einfaldlega fyrir Man OverBoard (maður fyrir borð).

Framkvæmdastjóri Viking, Einar Gylfi Haraldsson, segir að framtak Vinnslustöðvarinnar sé til marks um lofsvert frumkvæði sjávarútvegsfyrirtækja í öryggismálum - oft langt umfram kröfur sem kveðið sé á um í lögum og reglugerðum. Fyrirtæki í Vestmannaeyjum séu sérstaklega ábyrgðarfull í þessum efnum gagnvart sjómönnum sínum og hafi jafnan verið.

Hér sést hvernig senditækinu er komið fyrir inni í björgunarvestinu.
Hér sést hvernig senditækinu er komið fyrir inni í björgunarvestinu.

Einari leiðist ekki að nefna þetta og undirstrika því faðir hans var fæddur og uppalinn Eyjamaður og í höfuðstöðvum Viking björgunarbúnaðar í Hafnarfirði er heill veggur þakinn gömlum og afar skemmtilegum ljósmyndum sem tengjast útgerð, fiskvinnslu og mannlífi í Vestmannaeyjum. Heimsókn í Viking er því bæði fræðandi, áhugaverð og söguleg – í bókstaflegum skilningi.

Slys á loðnumiðum

Búnaður hliðstæður þeim sem kominn er um borð í Vinnslustöðvarskipin sannaði sig svo eftir var tekið í janúar 2022. Þá féll skipverji á Víkingi AK útbyrðis á loðnumiðunum. Sá var blessunarlega í björgunarvesti með AIS-sendi og áður en ein mínúta var liðin létu allar talstöðvar um borð í skipinu vita með látum að eitthvað hafði gerst og í brú annarra skipa í loðnuflotanum birtust á radar neyðarboð með staðsetningu þess sem í sjónum hafði lent.

Skipverjar á færeyska skipinu Högaberg náðu að varpa bjarghring til mannsins. Andartökum síðar bar að léttabát af Víkingi AK og menn á honum björguðu félaga sínum. Þá voru um 20 mínútur liðnar frá því skipverjinn féll útbyrðis og myrkur var að skella á.

Óhætt er að fullyrða að þarna hefði getað farið illa ef ekki hefði komið til senditækið í björgunarvestinu og staðsetningin.

Þess má geta í framhjáhlaupi að í höfuðstöðvum Viking sýndi Einar Gylfi framkvæmdastjóri öryggistæki sem hægt er að tengja þessari AIS-senditækni, LED-ljóskastara í kúpli sem komið er fyrir ofarlega á skipum. Falli skipverji í sjóinn gefur sendirinn frá sér neyðarmerki og þá kviknar um leið sjálfkrafa á kastaranum. Ljósgeislinn finnur strax þann sem í sjónum er og lýsir stöðugt á hann hvernig svo sem skipið veltur og snýst.

Þarf ekki að velta lengi vöngum yfir því hve miklu máli slík tækni gæti skipt ef skipverji fellur fyrir borð í myrkri.

Byltingarkennt öryggistæki

Sjálfvirkt senditæki í björgunarvesti er auðvitað ekkert minna en byltingarkennt öryggistæki til sjós og sannaði gildi sitt þegar maðurinn fór út af Víkingi AK í fyrra. Það slys hreyfði við mörgum.

Þetta segir Valdimar Gestur Hafsteinsson, stýrimaður á Gullbergi VE og skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE, skipum Vinnslustöðvarinnar.

Reynslan er alltaf ólygnust og hjá okkur er það einfaldlega skylda að vera í nýju vestunum sama hvernig viðrar og hvaða aðstæður ríkja hverju sinni.

Auðvitað er þekkt á sjó og landi að erfitt getur reynst í fyrstu að fá fólk til að nota öryggistæki sem fljótlega verða sjálfsögð. Ekki voru til dæmis allir hrifnir af öryggishjálmunum á sínum tíma, svo vægt sé til orða tekið. Núna dettur engum í hug að fara hjálmlaust á dekk.

Jafn sjálfsagt er að nota nýju björgunarvestin. Þetta eru dýr og mikilvæg öryggistæki sem eiga ekki að hanga í stakkageymslunni heldur nota. Undantekningarlaust.

Lýst eftir konum til starfa á sjó

Við hæfi er að botna þessa umfjöllun um mikilvægan þátt öryggis til sjós með því að vitna í grein í Bændablaðinu 8. júní 2023 þar sem fjallað er almennt um öryggismál sjómanna. Hér er ekki farið yfir lækinn til að sækja vatn því greinarhöfundur er Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, og viðmælandi hans Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. Þarna er meðal annars haft eftir Hilmari:

„Áhöfnin er einfaldlega eitt lið. Því skiptir skipulag, samhæfing og æfing kannski enn meira máli en áður. Sjómennskan í dag er orðin hátæknistarf með tilkomu allrar þeirrar tækni sem er um borð í skipunum. Hún er að verða allt öðruvísi en áður var.

Okkur vantar ungt fólk með tækniþekkingu til sjós og konur líka. Ekki skal gera lítið úr því að það er launajafnrétti til sjós. Þar eru allir á jöfnum hlut, hvort heldur eru karlar eða eða konur og hefur alltaf verið.

Okkur hefur ekki auðnast að auka hlut kvenna í sjómennsku, því miður. Konur eru lagnari við tæki en karlar og því er engin ástæða til annars en að hvetja þær til að ráða sig til sjós.“

Áhugavert er líka að lesa það sem Hilmar skólastjóri hefur að segja um samhengi svefns, hvíldar og öryggis sjómanna:

„Menn hafa vissulega betri aðbúnað, eru einir í klefa, jafnvel með sérstakt baðherbergi og sturtu fyrir sig og internettengingu í sínum klefa. Þá er ekki öll sagan sögð.

Menn verða að hugsa líka um sig sjálfa. Það gengur ekki að nota hvíldartímann til að hanga á Netinu við að horfa á bíómyndir í klefanum eða vera á spjallrásum samfélagsmiðla, sofa í 2-3 tíma og koma svo örþreyttir til vinnu.

Við tókum það saman hjá Rannsóknarnefnd sjóslysa að að algengasta ástæða þess að skip strönduðu var að skipstjórnendur höfðu verið vakandi allt að sólarhring og upp í tvo og sofnuðu svo allt í einu.“