Björgunarsveitin Lífsbjörg í Snæfellsbæ bjargaði ferðamanni sem var á flæðiskeri staddur undan bænum Ytri Tungu á sunnanverðu Snæfellsnesi fyrr í kvöld.

Björgunarsveitin var kölluð út á efsta forgangi vegna ferðamanns sem lent hafði á flæðiskeri.

Þar er vinsæll staður til selaskoðunar og hafði maðurinn gengið fram fjöruna, en svo flæddi að honum og lokaði sjórinn leið hans í land.

Þrír björgunarsveitarmenn í flotgöllum bundu sig saman og með öryggislínu í land, óðu og svo syntu að manninum. Nokkuð þung undiralda var á staðnum og útsogið talsvert.

Björgunarsveitarmenn festa línu í ferðamanninn.
Björgunarsveitarmenn festa línu í ferðamanninn.

Þeir komust að manninum og tryggðu hann í línu við sig, og voru svo dregnir í land af björgunarsveitarmönnum, lögreglu og sjúkraliði í landi.

Þegar manninum hafði verið komið í land hafði flætt yfir hæsta hluta skersins sem hann hafði staðið á, svo ekki mátti tæpara standa.

Maðurinn var kaldur og blautur, en að öðru leiti nokkuð vel haldinn. Hann var kominn í sjúkrabíl til aðhlynningar um klukkan 18:30