Ákveðið hefur verið að senda Birting NK til loðnurannsókna og mun skipið halda til móts við rannsóknaskipið Árna Friðriksson og aðstoða það við mælingar á loðnu.

Í síðustu viku hófust mælingar á loðnu á Árna Friðrikssyni vestur og norður af Vestfjörðum. Skiipið leitaði vars á mánudaginn vegna veðurs og hefur ekki viðrarð til leitar síðan. Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri segir í samtali við Fiskifréttir að þó nokkuð hafi mælst af loðnu og útlitið sé ekki slæmt.

Á vef Síldarvinnslunnar kemur fram að nú sé verið að útbúa Birting NK fyrir leiðangurinn. Skipið verður með sambærilegan leitarbúnað og hafrannsóknaskipið og þrír sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun verða um borð í honum. Áformað er að Birtingur haldi í loðnuleitina um helgina. Skipstjóri á Birtingi NK verður Tómas Kárason.