Stærsti hluti uppsjávarflotans hefur verið við makrílveiðar um 100 sjómílur austur af landinu innan íslenskrar lögsögu en einnig hafa nokkur Vestmannaeyjaskip veitt makríl suður af Vestmannaeyjum sem hefur verið síldarblandaður. Eskja á Eskifirði gerir út þrjú uppsjávarskip sem hafa verið í veiðisamstarfi. Að sögn Hlyns Ársælssonar hefur verið tekið á móti um 5 þúsund tonnum af makríl og síld það sem af er vertíðinni en heildarkvóti Eskju í makríl er nálægt 17 þúsund tonn.

Flest allt í haginn

Eskja hafði fryst tæp 3 þúsund tonn af makríl og 2 þúsund tonn af hausum, slógi og síld farið í bræðslu.

Hlynur nefnir þrennt sem er uppsjávarútgerðinni í hag þessa dagana; betra hráefni vegna styttri tíma á miðin og veiðisamstarfsins, minni útgerðarkostnaður skipa og það sem kannski ekki verði mælt í krónum og aurum sem er sú staðreynd að makríll veiðist innan lögsögunnar sem getur haft mikil áhrif á samningsstöðu Íslands á framtíðarskipan mála hvað varðar makrílveiðar strandríkjanna.

„Það er misjafn gangur á veiðunum en það sem hefur bjargað miklu eru þessar samveiðar sem allir hafa tekið upp sem skiptir okkur miklu máli. Svo skiptir nálægðin við miðin núna okkur miklu máli, bæði upp á gæði fisksins og mun styttri tími á miðin og aftur heim. Nú eru allir að leita en flotinn stefnir suður af Eyjum. Þar hefur hluti af Vestmannaeyjabátunum verið en vandamálið þar er að menn hafa verið að fá þar Íslandssíld. Bæði er lítið til af kvóta og hún er grindhoruð og stútfull af hrognum eða svilum. Þannig að síldin í þessu ástandi er hráefni til bræðslu og menn vilja forðast hana eins og þeir geta,“ segir Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju.

Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarvinnslu Eskju, handleikur loðnu frá síðustu vertíð.
Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarvinnslu Eskju, handleikur loðnu frá síðustu vertíð.
© Þorgeir Baldursson (.)

Munar öllu í gæðum

Eins og verið hefur að undanförnu hafa Austfjarðaskipin að hámarki verið um tíu tíma á miðin á móti allt að einum og hálfum sólarhring þegar skipin voru við makrílveiðar í Síldarsmugunni í fyrra.

„Þetta munar öllu í gæðum aflans. Miðað við síðustu ár erum við að sjá ótrúlega mikinn mun á fisknum sem við fáum. Við erum einfaldlega að framleiða betri vöru bæði í hausuðu og heilu.“

Hlynur er þó ekki viss um að þessi gæðamunur skili sér í hærri verðum á þessu ári. Afar rólegt er yfir makrílmörkuðum þessa dagana og hafa menn eiginlega engar skýringar á því, nema þá helst þá miklu hitabylgju sem geisar í Austur- og Suður-Evrópu. Stór hluti makrílafurðanna hafa farið til Austur-Evrópulanda og oft hafi verið mikil spurn eftir hausuðum makríl á þessu árstíma en því er ekki að heilsa núna. Vegna þessa safnast upp birgðir og á það jafnt við um Eskju sem og líklega önnur uppsjávarfyrirtæki.

Stór og fallegur makríll

Makríll sem hefur borist á land er stór og fallegur fiskur og fituinnihaldið er 17-18%. Fulltrúi japanskra kaupenda eru komnir austur og hann kaupir ekki fyrr en fituinnihaldið er komið í 19-20%. Hlynur segir að það sé ennþá töluverð áta í fisknum þótt mismunandi sé eftir holum. Sennilega sé um ein vika þar til hann nái fita sig upp í gæðastaðla japanskra kaupenda.

Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju. FF MYNDIR/ÞORGEIR

Eskja býr yfir einni hátæknivæddustu uppsjávarvinnslu landsins. Þarna var verið að vinna loðnu.