Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur beðið sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd að taka saman upplýsingar um losun örplasts hér á landi og leiðir þess til sjávar. Markmiðið með samantektinni er að fá greinargóðar upplýsingar um losun örplasts hér á landi.

„Plastmengun er vaxandi vandamál og það er mikilvægt að sporna gegn henni með öllum tiltækum ráðum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Það er brýnt að við söfnum saman á einn stað þeirri þekkingu og þeim gögnum sem liggja fyrir um örplast og losun þess hér á landi. Þess vegna var ákveðið að ráðast í þetta verkefni,“ sagði ráðherra þegar verkefnið var kynnt.

Greindar verða uppsprettur og magn örplasts sem losað er á Íslandi og leiðir þess til sjávar. Er markmiðið m.a. að fá yfirlit yfir stærstu uppsprettur örplasts í því skyni að geta forgangsraðað aðgerðum sem lúta að því að draga úr losun örplasts hér á landi.

Torkennilegir þræðir

Fiskifréttir sögðu frá því fyrir skemmstu að örplast finnst reglulega í sýnatökum Biopol í hafinu fyrir utan Skagaströnd. Fyrirtækið hefur því ákveðið að taka talningu á örplastþráðum fastari tökum.

„Dæmi hver fyrir sig en okkur finnast þessar myndir frekar óhugnanlegar og varpa ljósi á að plastmengun í hafinu er ekki endilega bara vandamál sem snerta aðrar þjóðir og fjarlæg hafsvæði,“ sagði Halldór Gunnar Ólafsson, framkvæmdastjóri Biopol, í viðtali við Fiskifréttir í sumar.

Biopol hefur fylgst með eðlis- og líffræðilegum þáttum sjávar við Skagaströnd frá árinu 2012 með vikulegum sýnatökum yfir vor- og sumarmánuðina, þar sem hitastig og selta hafa verið mæld á mismunandi dýpi. Einnig hefur verið fylgst með tegundasamsetningu og fjölda svifþörunga ásamt því að sérstök sýni hafa verið tekin til þess að fylgjast með stærð og magni kræklingalirfa.

„Starfsmaður var í upphafi þjálfaður til þess að fara í gegnum lirfusýnin og hefur sami aðili því sinnt þeim talningum frá upphafi,“ sagði Halldór Gunnar. „Fljótlega fór þessi samviskusami starfsmaður að veita athygli torkennilegum þráðum í mörgum litum sem sáust undir víðsjánni við lirfutalningarnar. Við nánari athugun kom í ljós að um var að ræða plastþræði sem ákveðið var að telja ásamt kræklingalirfunum.“

Sagði Halldór Gunnar jafnframt frá því að í vor var ákveðið að taka þessa talningu á plastþráðum alvarlegri tökum í ljósi þeirrar mikilvægu umræðu sem plastmengun í hafinu hefur fengið undanfarið. Má líta nýtt verkefni BioPol og stjórnvalda sem lið eða framhald þessara rannsókna BioPol.

Örsmáar agnir

Örplast eru plastagnir sem eru minni en fimm millimetrar að þvermáli. Plast hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri plasthluta í náttúrunni og kallast þá örplast. Örplast getur einnig verið svokallað framleitt örplast sem finnst í snyrtivörum og fleiri vörum.