Ísfisktogararnir Ottó N. Þorláksson og Dala-Rafn voru báðir nýbyrjaðir á bolfiskveiðum eftir langt hlé vegna loðnuveiða þegar bilana varð vart.
Svolítil snurða hljóp á þráðinn hjá Ísfélagi Vestmannaeyja í vikunni þegar tvö skipa félagsins biluðu með stuttu millibili. Bolfiskskipin Ottó N. Þorláksson og Dala-Rafn liggja því í höfn meðan verið er að kanna ástandið.
„Í Ottó er aðalvélarbilun, sennilega nokkuð alvarleg,“ sagði Eyþór Harðarson útgerðarstjóri þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn á þriðjudag. Þá var enn unnið að því að greina tjónið og meta stöðuna.
Hvað Dala-Rafn varðar segir hann ástandið ekki jafn alvarlegt og skipið ætti að komast aftur til veiða áður en langt líður: „Það var bilun í ásrafali og maður sér nú alveg fram úr því. Það þarf að fá annað hvort nýjan rafal eða vinda þennan sem fyrir er, og þetta eru þá einhverjir dagar.“
Nýbyrjuð
Bæði skipin voru nýbyrjuð að róa eftir nokkuð langt stopp.
„Við erum búnir að vera með áhafnirnar á loðnuskipunum Álsey og Suðurey, svo vorum við bara að fara að lokinni vertíð yfir á skipin til að ráðast á bolfiskinn. Þá verðum við fyrir þessum rekstrartruflunum.“
Útgerðarstjórinn sér þó enga ástæðu til að kippa sér upp við þetta.
„Þetta er hvort sem er tómt bras endalaust. Sá dagur kemur seint þar sem ekkert gerist.“
- Dala-Rafn var búinn að fara tvo túra á bolfiskveiðar þegar ásrafall bilaði. Mynd/Þorgeir Baldursson
Annars stefndi allt í góða veiði á bolfiskskipunum að lokinni gjöfulli en erfiðri loðnuvertíð.
„Dala-Rafn búinn að fara tvo túra og það er náttúrlega líflegt hérna við Eyjar þannig að hann var að koma með sín 220 kör í annað skiptið á stuttum tíma þegar þetta gerðist, en Ottó var að byrja í sinni fyrstu veiðiferð þegar þetta kemur upp á.“
Ottó N. Þorláksson er elsta skip Ísfélagsins, smíðaður hjá Stálskipum í Garðabæ fyrir um 40 árum, 50 metra langur og 880 tonn. Dala-Rafn er smíðaður í Póllandi árið 2007, 29 metra langur og 485 brúttótonn.