Ný byltingarkennd vinnslulína hefur verið tekin í notkun um borð í ferskfisktogaranum Málmey SK, sem FISK Seafood gerir út, að því er fram kemur í ítarlegri umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.

Nýja vinnslu- og kælilínan í Málmey SK er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Að henni standa systurfélögin Skaginn ehf. á Akranesi og 3X Techology ehf. á Ísafirði, sem hönnuðu búnaðinn og önnuðust smíði hans og uppsetningu. Búnaðurinn var settur í Málmey á Akranesi eftir að skipið kom frá Póllandi þar sem því var breytt úr flakafrystitogara í ferskfisktogara.

Málmey SK í höfn á Sauðárkróki, nýkomin úr breytingum. (Mynd Berglind Þorsteinsdóttir)
Málmey SK í höfn á Sauðárkróki, nýkomin úr breytingum. (Mynd Berglind Þorsteinsdóttir)
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Eftir aðgerð fer fiskurinn í myndgreiningu sem flokkar hann eftir tegund og stærð. Kælingin fer síðan fram í svonefndum Rotex blóðgunar- og kælitönkum. Í hverjum tanki er snigill sem færir fiskinn áfram í köldum sjó. Enginn ís er notaður, hvorki við kælingu eða til að viðhalda kælingu í lest.

Kælingin fer fram með svonefndum varmaskiptum. Rotextankurinn er þrískiptur og kæling á fiskinum gerist í áföngum. Í fyrsta hólfinu er fiskurinn kældur allt niður í núll gráður. Í því hólfi lýkur einnig blæðingu fisksins en fyrsta stigs blæðing fer fram eftir aðgerð. Í öðru hólfi er sjórinn kældur niður í mínus tvær gráður. Í þriðja hólfinu er sjórinn kældur niður í mínus fjórar gráður og er fiskurinn þá kominn niður í mínus eina gráðu þegar hann fer út.

Í hvert skrúfubil í rotextankinum fara um 300 kíló af flokkuðum fiski sem passa í 460 lítra kör. Körin fara niður í kælilest sem heldur fiskinum í mínus einni gráðu.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.