Alls hafa 579 bátar leyfi til strandveiða á yfirstandandi vertíð samanborið við 641 leyfi á síðustu vertíð. Þetta eru 9,7% færri veiðileyfi í ár eða 62 leyfum færri. Ekki hafa áður verið gefin út svo fá leyfi síðan strandveiðikerfið var innleitt en flest voru þau árið 2010 eða  747 talsins. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.

Kláruðu skammtinn fyrr

Strandveiðibátar kláruðu heimildir sínar á svæði A þann 20. maí sl. Lokunin á svæði A var töluvert seinna á ferð  en á síðasta ári en þá var svæðinu lokað þann 14 maí. Ástæðan var þá sjálfsagt óhagstæðara tíðarfar. Svæði D var einnig lokað áður en mánuðurinn var allur eða þann 24. maí.  Heildaraflabrögð strandveiðibátanna í nýliðnum mánuði voru 2.356 tonn. Þar af var 915 tonnum landað af svæði A og 531 tonn af svæði D.

Það sem vekur athygli varðandi aflabrögðin í nýliðnum mánuði er að afli á hvern bát var að jafnaði meiri á svæði D en á svæði A. Afli á hvern bát voru 4.498 kg á D svæði en 4.199 kg á A svæði.

Beta SU var aflahæsti strandveiðibáturinn í maí með 9.547 kíló, en Þorbjörg ÞH kom næst með 9.266 kíló. Báðir bátarnir eru af svæði C.

Hæsti meðalaflinn

Þegar horft er til meðalafla í róðri í maí á undanförnum vertíðum þá er meðalaflinn á yfirstandandi vertíð 610 kg sem mun vera mesti meðalafli fyrir þennan fyrsta mánuð strandveiða síðastliðinna sjö vertíða. Þess ber að nefna að meðalafli var minnstur árið 2013 eða 462 kg í róðri. Þess má geta að tíðarfar í maí 2013 var þá óvenju óhagstætt fyrir strand-veiðibátana en hann hefur verið nokkuð hagstæður.

Líkt og á undanförnum vertíðum þá er meðalafli í róðri mestur hjá bátum sem stunda veiðar á svæði A eða 673 kg.  Næst er aflinn á svæði B 617 kg, svæði C með 557 kg og loks rekur svæði B lestina með 532 kg.

Sjá nánar á v ef Fiskistofu.