Árið 2024 í heild sinni var það besta í sögu Arctic Fish með en framlegð rekstrarins var 15,1 milljón evra (1,42 evra pr.kg) eða 2,2 milljarðar króna. Rekstrarafkoma ársins, að meðtöldum vaxtagreiðslum og tekjuskatti, var 2,6 milljónir evra eða hagnaður um tæpar 400 milljónir króna. Bæjarins besta segir frá þessu. Arctic Fish hefur birt upplýsingar um afkomu sína á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og samantekt yfir árið í heild.

Heildartekjur ársins voru nærri 12 milljarðar króna og slátrað var 10.667 tonnum af laxi. Eigið fé var í árslok um 13 milljarðar króna og nam um 35,4% af bókfærðum eignum.

Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að slátra um 15 þúsund tonnum af eldislaxi, sem er aukning um 40% frá síðasta ári.

Arctic Fish hefur framleiðsluleyfi fyrir 29.800 tonnum af eldislaxi í fimm fjörðum á Vestfjörðum og þar af eru 27.000 tonn af frjóum laxi. Stefnt er að því að framleiðslan verði 25 þúsund tonn árið 2029.