Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Afli beggja var blandaður en mest af ýsu. Arnar Richardsson, rekstrarstjóri skipanna, segir að um þessar mundir sé mikil áhersla lögð á blandaðan afla en auðveldast sé að sækja ýsuna og þess vegna sé gjarnan mest af henni.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að túrinn hafi gengið þokkalega. „Við byrjuðum á Stórhöfðahrygg en þar var heldur rólegt. Þá var haldið á Meðallandsbugt í ýsukropp og síðan á Ingólfshöfða í þorsknudd. Því næst lá leiðin á Mýragrunn og þar fékkst blandaður afli og þar var fyllt. Veðrið var fínt allan túrinn. Eitt helsta vandamál okkar um þessar mundir er að sneiða hjá ýsunni. Hún er víða blessunin,“ segir Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að þeir hafi veitt víða. „Þetta var verulegur þvælingur á okkur í þessum túr, alveg frá Eyjum og austur í Breiðamerkurdýpi. Allan tímann var verið að reyna að fá eitthvað annað en ýsu því það er býsna mikið af henni. Þetta tókst bærilega en oft höfum við fengið í skipið á styttri tíma,“ segir Birgir Þór.

Bergur mun halda á ný til veiða síðdegis í dag og Vestmannaey í kvöld.