Beitir NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt laugardags með 3.000 tonn af kolmunna. Landað var úr skipinu á laugardaginn og sunnudaginn.
„Við vorum að veiðum austur af Færeyjum í rjómablíðu og aflinn var bara í góðu lagi. Við tókum átta hol og var dregið á milli 12 og 20 tíma. Það fengust að jafnaði 400 tonn í holi. Þetta var okkar síðasti kolmunnatúr að sinni og nú verður þrifið og makrílvertíð undirbúin. Næst þegar kolmunni verður veiddur mun það gerast innan íslenskrar lögsögu. Nú eru öll skip Síldarvinnslunnar hætt kolmunnaveiðum í bili og það var aðeins eitt íslenskt skip að veiðum þegar við héldum í land. Síðan voru þarna færeysk og rússnesk skip og eitt norskt að auki ásamt grænlenska skipinu Polar Ammassak,” sagði Tómas Kárason skipstjóri í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.