Beitir NK hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni á mánudagskvöld. Þegar tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar hafði samband við Sigurð Jóhannesson stýrimann lét hann þokkalega af sér:
"Við fengum 380 tonn í fyrsta holi en togað var í 14 tíma. Almennt voru skipin hér á svæðinu að fá ágætis afla í gær", sagði Sigurður.
Í fyrradag versnaði veðrið á miðunum og því var trollið ekki látið fara aftur. "Veðrið verður líklega ekki gott á ný fyrr en í dag", sagði Sigurður. "Síðan á veður að skána og það er þokkalegt veðurútlit í kortunum eftir þessa brælu.“