Dótturfyrirtæki Icelandic Group í Bretlandi hefur með fiskréttum undir vörumerkinu Saucy Fish Co. tekist að fjölga þeim neytendum sem leggja sér fisk til munns.
„Kannanir sýna að neytendur í Bretlandi eru hræddir við fisk. Hann lyktar, það eru bein í honum og hann er slímugur,“ sagði Simon Smith, framkvæmdastjóri Icelandic Seachill, dótturfyrirtæki Icelandic Group í Bretlandi í erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni á dögunum.
Þessari ímynd af fiski vildi fyrirtækið breyta og hleypti því af stokkunum fiskréttum undir vörumerkinu Saucy Fish Co. árið 2010 með það markmiðið að fjölga fiskneytendum með því að bjóða upp á handhæga rétti úr úrvalshráefni sem fljótlegt og auðvelt væri að elda. Þetta hefur tekist og nam sala fiskrétta undir þessu vörumerki 6,2 milljörðum króna á síðasta ári.
Mikið er lagt upp úr líflegum og frumlegum kynningum á vörunni í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Til þess að undirstrika að barnaleikur væri að matreiða vöruna var t.d. hóað saman nokkrum krökkum og þeim falið að reka veitingastað þar sem þau sáu um öll störfin, tóku pantanir, elduðu fiskinn, þjónuðu til borðs og þvoðu upp á eftir. Allt var tekið upp á myndband og því dreift á samfélagsmiðlum.
Sjá nánari umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum, en myndbandið af krakkaveitingastaðnum má sjá – HÉR