Norskir og rússneskir fiskifræðingar hafa gefið út ráðgjöf um þorskveiði úr Barentshafi á árinu 2023. Ekki er talið ráðlegt að veiða meira en 566.784 tonn sem er 20% minna en á árinu 2022. Þetta er annað árið í röð sem ráðgjöfin er lækkuð um 20%, en ekki er heimilt að lækka ráðgjöfina um meira en 20% á ári.

„Þorskstofninn er á niðurleið, en mun væntanlega ná stöðugleika ef ráðgjöfinni er fylgt,“ segir Bjarte Bogstad, sérfræðingur hjá norsku Hafrannsóknastofnuninni. Ráðgjöfin hefur ekki verið lægri síðan 2009, en hún hefur lækkað á hverju ári síðan 2013.

„Við getum reiknað með að hún lækki eitthvað áfram á næsta ári áður en þróunin fer að jafnast út,“ segir hann.

Hrygningarstofn þorsks í Barentshafi er nú talinn vera um 800.000 tonn og hefur hann ekki mælst minni síðan 2008.

Stofninn ennþá mikilvægur

„Þorskurinn í Barentshafi er ennþá stór og mikilvægur stofn, en magnið er ekki lengur ævintýralega mikið,“ segir Bogstad.

Undanfarna áratugi hefur stofninn sveiflast töluvert í stærð og veiðarnar hafa sveiflast eftir því. Um miðjan áttunda áratuginn voru veidd um 900.000 tonn á ári, en veiðin hrapaði niður í 300.000 tonn á árunum 1983-85. Stofninn náði sér þó á strik aftur og árið 2014 náði veiðin hámarki í 986.449 tonnum.

Verðþrýstingur

„Þetta mun styðja við verð á þorski eins og það er núna og jafnvel leiða til aukins þrýstings á verðhækkanir en á móti verðum við að bíða og sjá með almenna efnahagsþróun en þar eru náttúrulega blikur á lofti,“ sagði Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu, í nýlegri umfjöllun Fiskifrétta um markaðsþróunina. Hann taldi þá að reikna mætti með 10 til 15% samdrætti.

Á síðasta ári veiddu Íslendingar um níu þúsund tonn af þorski í Barentshafi, þar af megnið eða 7.500 tonn í norskri lögsögu. Mest veiddu Íslendingar af þorski þar um miðjan níunda áratuginn, allt upp í nærri 37.000 tonn árið 1994 og á árunum 2013 til 2016 veiddum við þar á bilinu 15 til 18 þúsund tonn á ári.

Án aðkomu ICES

Ráðgjöfin er að þessu sinni án aðkomu Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem sagði sig frá öllu samstarfi við Rússland eftir að innrásin í Úkraínu hófst í mars síðastliðnum.

Norska Hafrannsóknastofnunin mat það hins vegar svo að ekki væri hægt annað en að hafa samstarf við rússnesku Hafrannsóknastofnunina (VNIRO) um veiðar úr Barentshafi.

Geir Huse, forstjóri norsku stofnunarinnar, segir samstarfið hafa gengið vel en óneitanlega hafi það verið sérstakt.

„Ég vona auðvitað að þetta sé undantekning, að við getum haldið áfram að vinna ráðgjöfina með ICES eins og venjulega,“ segir hann.

„En við höfum fylgt eftir föstum forskriftum, eftir því sem hægt hefur verið. Við höfum notað sömu aðferðirnar við rannsóknir eins og á fyrri árum.“

Norskir og rússneskir fiskifræðingar hafa gefið út ráðgjöf um þorskveiði úr Barentshafi á árinu 2023. Ekki er talið ráðlegt að veiða meira en 566.784 tonn sem er 20% minna en á árinu 2022. Þetta er annað árið í röð sem ráðgjöfin er lækkuð um 20%, en ekki er heimilt að lækka ráðgjöfina um meira en 20% á ári.

„Þorskstofninn er á niðurleið, en mun væntanlega ná stöðugleika ef ráðgjöfinni er fylgt,“ segir Bjarte Bogstad, sérfræðingur hjá norsku Hafrannsóknastofnuninni. Ráðgjöfin hefur ekki verið lægri síðan 2009, en hún hefur lækkað á hverju ári síðan 2013.

„Við getum reiknað með að hún lækki eitthvað áfram á næsta ári áður en þróunin fer að jafnast út,“ segir hann.

Hrygningarstofn þorsks í Barentshafi er nú talinn vera um 800.000 tonn og hefur hann ekki mælst minni síðan 2008.

Stofninn ennþá mikilvægur

„Þorskurinn í Barentshafi er ennþá stór og mikilvægur stofn, en magnið er ekki lengur ævintýralega mikið,“ segir Bogstad.

Undanfarna áratugi hefur stofninn sveiflast töluvert í stærð og veiðarnar hafa sveiflast eftir því. Um miðjan áttunda áratuginn voru veidd um 900.000 tonn á ári, en veiðin hrapaði niður í 300.000 tonn á árunum 1983-85. Stofninn náði sér þó á strik aftur og árið 2014 náði veiðin hámarki í 986.449 tonnum.

Verðþrýstingur

„Þetta mun styðja við verð á þorski eins og það er núna og jafnvel leiða til aukins þrýstings á verðhækkanir en á móti verðum við að bíða og sjá með almenna efnahagsþróun en þar eru náttúrulega blikur á lofti,“ sagði Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu, í nýlegri umfjöllun Fiskifrétta um markaðsþróunina. Hann taldi þá að reikna mætti með 10 til 15% samdrætti.

Á síðasta ári veiddu Íslendingar um níu þúsund tonn af þorski í Barentshafi, þar af megnið eða 7.500 tonn í norskri lögsögu. Mest veiddu Íslendingar af þorski þar um miðjan níunda áratuginn, allt upp í nærri 37.000 tonn árið 1994 og á árunum 2013 til 2016 veiddum við þar á bilinu 15 til 18 þúsund tonn á ári.

Án aðkomu ICES

Ráðgjöfin er að þessu sinni án aðkomu Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem sagði sig frá öllu samstarfi við Rússland eftir að innrásin í Úkraínu hófst í mars síðastliðnum.

Norska Hafrannsóknastofnunin mat það hins vegar svo að ekki væri hægt annað en að hafa samstarf við rússnesku Hafrannsóknastofnunina (VNIRO) um veiðar úr Barentshafi.

Geir Huse, forstjóri norsku stofnunarinnar, segir samstarfið hafa gengið vel en óneitanlega hafi það verið sérstakt.

„Ég vona auðvitað að þetta sé undantekning, að við getum haldið áfram að vinna ráðgjöfina með ICES eins og venjulega,“ segir hann.

„En við höfum fylgt eftir föstum forskriftum, eftir því sem hægt hefur verið. Við höfum notað sömu aðferðirnar við rannsóknir eins og á fyrri árum.“