Frystitogarinn Barði NK frá Neskaupstað er nú á leið til Fáskrúðsfjarðar með togarann Ljósafell SU í togi og er gert ráð fyrir að skipin komi til hafnar seint í kvöld. Þetta er í annað sinn í sömu vikunni sem Barði sinnir verkefni af þessu tagi því sl. mánudag dró hann ísfisktogarann Bjart NK til Neskaupstaðar eftir að bilun hafði orðið í aðalvél skipsins.

Klukkan fimm í morgun var Barði staddur úti af Stokksnesi á vesturleið þegar togarinn Ljósafellið óskaði aðstoðar. Hafði Ljósafellið fengið í skrúfuna á suðvesturhorni Stokksnesgrunns og þurfti á aðstoð að halda. Barði var kominn að Ljósafellinu að þremur tímum liðnum og er nú á leið með skipið í togi til Fáskrúðsfjarðar.  Að sögn Geirs Stefánssonar stýrimanns á Barða gengur siglingin vel enda veður afar gott.

Það er af Bjarti að segja að gert ráð fyrir að haldi á ný til veiða annað kvöld eða á sunnudag að aflokinni viðgerð.

Frá þessu er skýrt á vef Síldarvinnslunnar.