Fiskneysla í Bandaríkjunum var 15,8 pund (7,18 kíló) á mann að meðaltali á síðasta ári samkvæmt nýjum tölum frá NOAA (National Oceanic and Atmospheric Adminstration). Þetta er minni neysla en árið 2008, er hún var 16 pund, og minnsta neysla frá árinu 2002 en þá borðaði hver Bandaríkjamaður að meðaltali 15,6 pund af sjávarafurðum.

Bandaríkjamenn vörðu alls 75,5 milljörðum dollara (8.909 milljörðum ISK) til kaupa á sjávarafurðum á árinu 2009. Þar af var keypt fyrir um 47 milljarða dollara hjá þjónustuaðilum og um 24 milljarða í smásöluverslunum.

Á síðasta ári var landað 3,6 milljónum tonna af sjávarafla í Bandaríkjunum að verðmæti 3,9 milljarðar USD (460 milljarðar ISK). Hér er um að ræða 6% minnkun í magni og 11% samdrátt í verðmætum frá árinu áður.

Sem fyrr er Dutch Harbor-Unalaska í Alaska aðallöndunarhöfnin í Bandaríkjunum hvað magn varðar. Þar var landað um 230 þúsund tonnum af fiski. New Bedford í Massachusetts er sú höfn sem tók við mestum aflaverðmætum, eða 249 milljónum USD (29 milljarðar ISK).

Bandaríkjamenn fluttu inn 2,4 milljónir tonna af sjávarafurðum á árinu 2009 að verðmæti 13 milljarðar USD (1.545 milljarðar ISK) og er um nokkurn samdrátt að ræða frá árinu 2008.

Útfluttar sjávarafurðir frá Bandaríkjunum námu hins vegar 1,1 milljón tonna að verðmæti 4 milljarðar USD (472 milljarðar ISK) og er þar einnig um nokkurn samdrátt að ræða.

Heimild: www.seafoodsource.com