Útgerðarfélagið Völusteinn ehf. í Bolungarvík fékk nú á dögunum afhentan nýjan Cleopatra 40B bát, Hrólf Einarsson ÍS 255, frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni standa Gunnar Torfason og Ólafur Jens Daðason. Sá síðarnefndi verður skipstjóri á bátnum og Hjalti Þorkelsson á móti honum.

,,Ástæðan fyrir því að við réðumst í nýsmíðina var fyrst og fremst sú að við vildum bæta öryggi, vinnuaðstöðu og orkunýtingu,“ segir Gunnar Torfason útgerðarstjóri  í samtali við Fiskifréttir.  ,,Þótt þetta sé aðeins 15 tonna bátur er hann búinn öllum þeim öryggistækjum sem eru í stærri bátum.“

Báturinn mælist 15 brúttótonn, mesta lengd nýja er 12,60 metrar og breidd 4,65 metrar.  Hann tekur 16 kör í lest (660 lítra) eða 10 tonn af fiski.

Aðalvélin er frá Ásafli ehf. af gerðinni Isuzu 720 hö tengd tveggja hraða gír. Báturinn er búinn tveimur vökvadrifnum hliðarskrúfum af gerðinni Wesmar og eru þær tengdar sjálfstýringu bátsins.  Siglingatæki eru frá Sónar ehf., línuspil frá Beiti ehf og annar búnaður til línuveiða frá Stálorku ehf. Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

Sjá nánar umfjöllum um bátinn og viðtal við Gunnar Torfason í nýjustu Fiskifréttum.