Skinney SF og Þórir SF, togbátar Skinneyjar-Þinganess, eru báðir komnir til landsins eftir að þeir voru lengdir í Gdynia í Póllandi. Þórir kom til landsins í síðustu viku en ráðgert er að báðir bátarnir fari fyrst um sinn á humarveiðar.
„Það er gott að vera búinn að fá skipin heim. Þau voru lengd um tæpa 10 metra, 8 metra um miðjuna og 1,6 metra að aftan. Það sem vinnst með þessari breytingu er betri meðhöndlun á afla á vinnsludekki. Auk þess stækkar lestarrýmið um rúmlega helming. Öll aðstaða til netavinnu á efsta þilfari gerbreytist sömuleiðis. Bátarnir voru ansi stuttir og lítið pláss til þess að athafna sig við þau verk. En fyrst og fremst snýst þetta um bætta meðferð aflans,“ segir Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða hjá Skinney-Þinganesi hf.
Eftir breytingu komast 420 kör fyrir í lestinni en áður 180. Ásgeir segir að aðbúnaður áhafnar breytist ennfremur með þremur nýjum eins manns klefum og bættri aðstöðu í setustofu. Aukið rými verður líka í stakkageymslu.
Verið er að setja nýjan vinnslubúnað í skipin og standa vonir til þess að hægt verði að ljúka því verki í Skinney í þessari viku. Gerður var samningur við fyrirtækið Micro um búnað á millidekkið sem felur meðal annars í sér blóðgunardreka og kælikör og allur hugbúnaður kemur frá Völku. Millidekkið verður því alfarið íslensk hönnun og smíði. Fyrirtækið Kæling verður með allt kælikerfið í skipunum, Raftíðni sér um rafmagnsvinnu, Þór í Vestmannaeyjum um færibönd í lest, Megapíp um pípulagnir og Stálsmiðjan Framtak um almenna stálsmíðavinnu. Sams konar búnaður verður í báðum skipum.
„Við förum aðeins styttri leið að þessu sinni í kerfinu í Þóri en skipin fara bæði á humar, Skinney í þessari viku og Þórir í þeirri næstu. Í framhaldi af því fara þeir á fiskitroll og verða á þessum veiðiskip, humri og fiskitrolli. En það eru reyndar miklar blikur á lofti með humarinn eins og flestir vita. Við höfum verið með Þinganesið á humarveiðum frá því í mars og aflinn er enn minni en var í fyrra. En það mátti svo sem búast við því vegna þess að það voru reglugerðarlokanir á þessum tíma sem ganga út á að tveimur bestu humardýpunum verður lokað í eitt ár,“ segir Ásgeir.