Linda Björk Gunnlaugsdóttir hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra hjá Bacco Seaproducts ehf. sem sérhæfir sig í sölu á sjávarafurðum á erlenda markaði. Linda er ekki alveg á nýjum slóðum því hún starfaði í mörg ár sem framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi sem annast sérhæfða flutninga á miklu magni sjávarafurða frá Íslandi til Evrópu.

„Ég hef verið spurð að því hvers vegna ég hafi farið úr starfi sem framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi í starf framkvæmdastjóra Bacco. Starfið í Smyril Line var mjög spennandi og þar kom ég að uppbyggingarverkefnum í 8 ár og í raun lengur þar sem ég var í stjórn Smyril Line í Færeyjum frá 2008. Þegar mér var boðið tækifæri til að reyna mig á nýjum vettvangi og í nýjum krefjandi verkefnum þá gat ég ekki sagt nei. Ég sá þarna tækifæri til að kynnast nýjum bransa sem er kaup og sala á sjávarafurðum sem er okkar aðal útflutningsvara og hefur verið frá því elstu menn muna. Ég þekki vel hvernig flytja á vörurnar en núna er ég að kynnast hinni hliðinni sem er kaup og sala. Þetta er spennandi og lifandi bransi þar sem enginn dagur er eins,“ segir Linda.

Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Bacco Seaproducts..
Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Bacco Seaproducts..
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Allar tegundir sjávarafurða

Linda segir að Bacco sé hlekkur milli framleiðenda og kaupenda á sjávarafurðum.

„Við hlustum á kaupendur og neytendur á erlendum mörkuðum og miðlum þeim upplýsingum til framleiðenda og komum upp viðskiptasamböndum. Einnig hafa framleiðendur oft frumkvæðið í vöruþróun og við finnum þá leiðir og kaupendur af þeirri vöru. Við sjáum svo um fjármögnun, flutninga og greiðslutryggingar sem eykur öryggi framleiðenda í söluferlinu öllu. Með því að versla fisk í gegnum miðlara eins og Bacco þá hefur kaupandinn aðgang að mun breiðara úrvali af afurðum og framleiðendur hafa öruggar leiðir til sölu.“

14 manns starfa í sölu og þjónustu hjá Bacco og fyrirtækið sinnir breiðum hópi kaupenda. Það selur allar tegundir sjávarafurða; ferskan fisk, frosinn og saltaðan, bolfisk, eldisfisk, uppsjávarfisk, rækjur og áfram mætti telja. Alls hefur fyrirtækið milligöngu um sölu á um 11 þúsund tonnum á ári. Stærstu markaðirnir eru Bretland, Evrópa og Bandaríkin.

„Allir markaðir eru undir og allir eru þeir mikilvægir. Margir viðskiptavinir eru með séróskir og við ásamt framleiðendum reynum svo að gera okkar besta til að uppfylla óskirnar. Afurðaverð hafa verið há undanfarið enda er eftirspurnin eftir fiski mikil og kvótinn minni. Það hefur líka áhrif á verðþróunina að þorskkvótinn er einnig að minnka í Barentshafi þannig að fiskverð hefur haldist hátt,“ segir Linda.