Þýska fyrirtækið Baader hefur gengið til liðs við Íslenska sjávarklasann. Með þessu vill Baader efla samskipti sín við frumkvöðla í sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, sem eru með aðstöðu í Sjávarklasanum. Jafnframt styrkir Baader þá stefnu sem mörkuð hefur verið að auka fullvinnslu í sjávarútvegi.

Robert Frocke, framkvæmdastjóri Baaders, og Þór Sigfússon, stofnandi og eigandi Sjávarklasans, undirrituðu aðild Baaders fyrir stuttu á sýningarbás Baaders á alþjóðlegu fiskvinnslusýningunni Seafood Processing Global 2022 í Barcelona á Spáni.

Við það tækifæri sagði Þór: „Íslenski sjávarklasinn og Baader hafa ákveðið að vinna saman að því að efla nýtingu sjávarafurða. Við stefnum á að vinna saman að því að aðstoða sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa metnað til að búa til verðmæti úr hliðarstraumunum.“

Baader keypti á síðasta ári hátæknifyrirtækið Skagann 3X, en rétt eins og Skaginn 3X sérhæfir Baader sig í hátæknilausnum í matvælaframleiðslu. Skaginn 3X er áfram rekið sem sjálfstæður hluti af Baader samsteypunni.

Baader hefur framleitt vélar til fiskvinnslu frá árinu 1919, og flæðilínur síðan 1969.

Fyrirtækjasamsteypan er með höfuðstöðvar í Þýskalandi en starfrækir þjónustustöðvar og dótturfyrirtæki í meira en 70 löndum.