Velta norska síldarsölusamlagsins (Norges Sildesalgslag) jókst um 650 milljónir króna milli áranna 2013 og 2014 og fór alls í 6,48 milljarða (um 110 milljarða ISK). Mestu munaði um aukna makrílsölu en samdráttur varð í sölu á norsk-íslenskri síld. Alls voru seld 1.498 þúsund tonn á uppboðum samlagsins á síðasta ári sem er 242 þúsund tonna aukning frá fyrra ári.
Sundurliðun á sölu uppsjávarfisks hjá Norges Sildesalgslag, eftir tegundum, magni, verðmæti og meðalverði á kíló á árinu 2104 má sjá HÉR .
Sala á makríl af norskum skipum jókst úr 161 þúsund tonni 2013 í 271 þúsund tonn árið 2014. Erlend skip seldu 75.300 tonn af makríl í Noregi árið 2013 en 154.500 tonn á síðasta ári.
Heildarsala á makríl á uppboðum hjá síldarsamlaginu fór úr 240.700 tonnum 2013 í 432.170 tonn á nýliðnu ári. Í heild jókst sala á makríl um 1,13 milljarða, fór úr 2,13 milljörðum 2013 (36 milljörðum ISK) í 3,26 milljarða 2014 (55 milljarða ISK). Meðalverð á makríl lækkaði hins vegar úr 8,85 krónum á kíló 2013 (149,6 ISK) í 7,55 krónur árið eftir (127,6 ISK).
Sala á norsk-íslenskri síld nam 258 þúsund tonnum og 1,43 milljörðum (um 24 milljörðum ISK). Meðalverðið var 5,52 krónur á kíló (93,8 ISK).
Um 40 þúsund tonn voru seld af loðnu úr Barentshafi á síðasta ári og var verðmætið tæpar 80 milljónir (tæpir 1,4 milljarðar ISK). Árið 2013 voru seld 120.700 tonn af loðnu úr Barentshafi og verðmætið var 265 milljónir (tæpir 4,5 milljarðar ISK).
Sala á kolmunna jókst um 208 þúsund tonn og á sandsíli um 52 þúsund tonn. Alls seldust 403 þúsund tonn af kolmunna.