Sjávarútvegsráðherra hefur farið að ráðum Hafrannsóknastofnunarinnar og gefið út aukinn loðnukvóta sem nemur 125 þúsund tonnum. Áður hafði verið heimiluð 200 þúsund tonna veiði, þannig að alls nemur kvótinn 325 þúsund tonnum.
Af viðbótinni nú fara nú um 23.500 tonn til erlendra skipa samkvæmt milliríkjasamningum en liðlega 100 þúsund tonn til íslenskra loðnuveiðiskipa. Af 325 þúsund tonna heildarkvóta á þessari loðnuvertíð mega íslensk skip veiða 252 þúsund tonn en erlend skip 73 þúsund tonn.
Loðnustofninn verður mældur á ný þegar loðnan er komin suður fyrir land og þá ræðst hvort um frekari viðbót verður að ræða eða ekki.