Heildarafli íslenska flotans á fyrstu 3 mánuðum fiskveiðiársins 2016/2017 nam tæpum 272 þúsund tonnum upp úr sjó, samkvæmt samantekt á vef Fiskistofu . Til samanburðar var aflinn á sama tímabili í fyrra rúm 259 þúsund tonn. Þetta er aukning í heildarafla sem nemur um 5,0% eða rúmum 12 þúsund tonnum. Þetta skýrist að mestu af aukningu á þorsk- og makrílafla.

Á fyrstu 3 mánuðum yfirstandandi fiskveiðiárs veiddu íslensk skip um 694 tonnum meira af þorski en samdráttur var í ýsuafla, um 1,2 þúsund tonn. Heildaraflinn í botnfiski er á þremur fyrstu mánuðum fiskveiðiársins er 120.855 tonn samanborið við 123.193 tonn á sama tímabili í fyrra. Þetta er samdráttur upp á 1,9%.

Á þremur fyrstu mánuðum fiskveiðiársins nam uppsjávarafli íslenskra skipa 148.756 tonnum. Þetta er 14.785 tonnum meiri afli en á sama tímabili á síðasta fiskveiðiári. Helst er það aukning í afla úr norsk-íslenska síldarstofninum og aukning á makrílafla sem skýrir þessa aukningu. Hins vegar var verulegur samdráttur í kolmunnaafla eða úr 19 þúsund tonnum niður í 6 þúsund tonn.

Afli íslenskra skipa í skel- og krabbadýrum á þremur fyrstu mánuðum fiskveiðiársins er sambærilegur við aflann á sama tíma í fyrra. Aukningin á yfirstandandi fiskveiðiári nemur aðeins um 18 tonnum. Afli í sæbjúgum og ígulkerum jókst. Samdráttur varð hins vegar í rækjuafla og humarafla.